„Ég tel að við þurfum að leggja mun meiri áherslu á að efnahagskerfið okkar sé þrautseigara og hraustara en það var árið 2007,“ sagði Mervyn King, fyrrverandi seðlabankastjóri Bretlands, í Kastljósi I kvöld. Hann segir tvennt vera afar áríðandi.
Annars vegar að tryggja að bankarnir sjálfir séu ekki of skuldsettir, að þeir hafi gefið út nóg af hlutabréfum til þess að þeir sjálfir standist tap. „Ef eitthvað slæmt kemur fyrir bankana viljum við að hluthafar axli byrðina, ekki skattgreiðendur,“ sagði King lávarður. Hitt atriðið er að átta sig á þvi að það eiga eftir að koma stundir þar sem ríkisstjórnin eða seðlabankinn neyðast til að lána viðskiptabönkunum mikið fé til þess að þeir lifi af tímabundinn skort á tiltrú. „Það allra mikilvægasta er að áhættan bitni ekki á skattgreiðendum. Þess vegna þurfa bankar að leggja verðbréf inn í seðlabankann sem tryggingu ef og þegar bankarnir þurfa lán. Við getum gengið miklu lengra í þessa átt,“ segir King.
King segist telja að eftirlitsaðilar um allan heim hafi lært eitthvað af bankahruninu 2008. En hann ótast að það sem þeir hafi gert til að betrumbæta kerfið sé að tryggja að nákvæmlega það sem gerðist 2008 endurtaki sig ekki. „En næsta krísa kemur auðvitað úr allt annarri átt. Við vitum ekki hvenær eða úr hvaða átt,“ sagði King.