Minnst tvisvar í viku kemur saman hópur karla í skúr í Hafnarfirði. Þar drekka þeir kaffi, smíða, framkalla ljósmyndir, vinna í líkönum eða í málm. Mennirnir eru þátttakendur í verkefni á vegum Rauða krossins sem kallast Karlar í skúrum.
Skúrinn er að ástralskri fyrirmynd og þar í landi eru um 1000 skúrar að sögn Harðar Sturlusonar verkefnastjóri hjá Rauða krossinum. Á Írlandi eru 450 skúrar. Á Íslandi eru þrír skúrar, sá við Helluhraun í Hafnarfirði sem er kominn í fulla noktun, en verið er að standsetja annan í Breiðholti og þann þriðja á Patreksfirði. Hörður segir að það sé líka áhugi á að koma upp skúr á Austurlandi.
Sem stendur eru skúrarnir aðeins fyrir karla, en Hörður segir vel koma til greina að opna kvennaskúra eða blandaða skúra. Til að byrja með er áherslan þó á karla. Í ljós hafi komið að konur séu í miklum meirihluta þeirra sem nýti sér ýmis verkefni á vegum Rauða krossins, mögulega af því að þau henti körlum síður. En Karlar í skúrnum hafi hitt í mark.
Hátt í 40 karlar séu skráðir félagar að skúrnum í Hafnarfirði. Hörður segir að þar sé opið frá klukkan 10 á þriðjudögum og fimmtudögum og öllum velkomið að reka inn nefið og kanna hvernig þeim lítist á og jafnvel að gerast félagar. Þeir sem eru skráðir í félagsskapinn eru aftur á móti með lykil að skúrnum og geta því notað hann hvenær sem er, en ganga að því vísu á þriðjudögum og fimmtudögum að félagar þeirra séu á staðnum.
Á kaffistofunni er farið yfir þetta helsta, heimsmálin rædd og jafnvel komið niður á lausn, eins og félagarnir fullyrða að hafi gerst í morgun - þeir hafi leyst helstu vandamálin sem tengjast gervigreind.
Jakob Kristinsson prófessor í lyfjafræði segir að félagsskapurinn skipti máli en hann fór að mæta í skúrinn vegna áhuga á handverki enda er þar gott aðgengi að öllum græjum sem til þarf.