Gunnar Theodór Eggertsson gagnrýndi kvikmyndirnar Webcam og Albatross í Víðsjá, fimmtudaginn 23. júlí og kallaði eftir fleiri bitastæðum kvenhlutverkum í íslenskar bíómyndir í leiðinni:

Í dag mun ég fjalla um tvær nýjar íslenskar kvikmyndir sem báðar eiga það sameiginlegt að vera sjálfstætt framleiddar og vera eftir nýja leikstjóra sem eru að gera sínar fyrstu eða aðrar myndir. Báðar hafa enn fremur ratað í almennar sýningar í bíó og áður en lengra er haldið er því tilefni til að fagna gróskunni í litlum myndum, sem þora að hella sér út í samkeppni við stærri framleiðslur, því það er vissulega afar mikilvægt að viðhalda frjóum jarðvegi innan sjálfstæðrar kvikmyndagerðar, því maður veit aldrei hvað gæti sprottið upp. Myndirnar eru auðvitað dálítið hráar miðað við stærri framleiðslur, skiljanlega, en auðvelt er að líta framhjá slíku ef þær eru sterkar á aðra vegu. Hefjum leikinn hjá Albatross, áður en ég skelli mér síðan í Webcam.

Karlmaður í tilvistarkrísu
Gamandramað Albatross, leikstýrt af Snævari Sölvasyni,segir frá Tómasi, ungum reykvískum manni sem er á leið í framhaldsnám en vantar vinnu yfir sumarið. Hann eltir kærustuna til Bolungarvíkur og hefur störf hjá golfklúbbnum þar. Þegar kærastan hættir síðan með honum lendir Tómas í tilvistarkrísu, fastur fyrir vestan og óviss um hvað tekur við. Hann myndar sterkt samband við vinnufélagana og eyðir sumrinu í leit að sjálfum sér, til að skilja hvað hann raunverulega vilji gera, eins og ein persóna orðar það umbúðalaust. Samhliða þroskasögunni liggur þráður tengdur yfirmanni Tómasar á golfvellinum, sem stendur í hálfgerðu stríði við golfklúbbinn á Ísafirði og vill ólmur fá væntanlegt stórmót á völlinn til sín, en það færir aukna pressu á störf Tomma og félaga. 

Saga um karlmann í tilvistarkrísu, sem er bæði fastur í lífinu og bókstaflega fastur á ákveðnum stað, og hefur verið sagt upp af kærustunni, er söguþráður sem mér finnst ég hafa séð óvenjuoft í íslenskum kvikmyndum upp á síðkastið. Ég efast ekki um einlægnina sem liggur að baki Albatross, en söguefnið er svo kunnuglegt að ég átti erfitt með að halda áhuganum til lengdar. Myndin sver sig líka í ætt við þá sterku karllægu kvikmyndahefð sem ræður ríkjum hér á landi. Kynhlutverkin eru gríðarlega karlmiðuð, einu konurnar í myndinni eru þær sem annað hvort hafa farið illa með karlana með því að hætta með þeim eða halda framhjá þeim, og svo nokkrar blómastúlkur sem vinnufélagarnir dást að úr fjarska og kunna ekki að tala við. Kvenpersónur eru þannig nánast fjarverandi, á meðan samband vinnufélaganna er í fyrirrúmi, og vinnustaðarspjallið, sem inniheldur m.a. alltof langa senu þar sem félagarnir ræða klósettvenjur sínar í smáatriðum og hlæja að því hvort konur prumpi eða ekki. Gott og vel, kannski er þetta allt afskaplega raunsæ framsetning á karlaspjalli, en myndin nær aldrei að brjótast út fyrir þetta sjónarhorn og virðist ekki endilega gera sér grein fyrir því.

Þreytandi karlmiðja í íslenskum kvikmyndum
Ég er eflaust ekki einn um að vera orðinn dálítið þreyttur á hinni ríkjandi karlmiðju sem er til staðar í íslenskum kvikmyndum, og í því samhengi er myndin sem fjallað verður um hér á eftir einkar áhugaverð, en ég vil samt ekki láta myndina Albatross verða fyrir útrás á pirringi um kynhlutverk í íslenskum kvikmyndum. Þótt ég hafi séð einum of margar þroskasögur kvenmannslausra karlmanna upp á síðkastið – sem er eflaust efni í áhugaverða kynjafræðilega stúdíu út af fyrir sig – þá er það auðvitað ekki Albatross að kenna, heldur frekar hluti af kvikmyndamenningunni sem heild. Albatross meinar vel og reynir að segja persónulega sögu aðalpersónunnar, virkar eins og hún sæki heilmikið í reynsluheim kvikmyndagerðarfólkins þar að baki, og leggur mikið upp úr því að fanga stemninguna í Bolungarvík – og ekki á Bolungarvík, eins og kemur skýrt fram í myndinni – sem gefur henni sérstakan blæ. Sagan um ríginn á milli kaupstaða er skemmtileg og baráttan á milli náttúruverndar og útbreiðslu golfvallarins býður upp á góðar pælingar. Leikararnir standa sig að mestu leyti vel og myndatakan er nokkuð grípandi, sérstaklega í ákveðnum atriðum í seinni hlutanum. Albatross er einlæg mynd, en að sama skapi frekar einfeldningsleg í allri framsetningu á þroskasögunni. Persónur hika ekki við að segja áhorfendum flest allt sem þær hugsa, og boðskapurinn verður vandræðalega bókstaflegur á köflum, sérstaklega í tengslum við gröfuspekinginn sem mætir til leiks eins og spámaður og færir alla merkingu myndarinnar að óþörfu í orð. Albatross er þannig létt afþreying sem hægt er að hafa eitthvað gaman af, en á heildina litið fer hún það vel troðnar slóðir á flesta vegu að hún situr ekki sérstaklega eftir.

Kynlíf, sjónfróun og blætisdýrkun
Það sama verður varla sagt um kvikmyndina Webcam, leikstýrðri af Sigurði Anton Friðþjófssyni, sem reynir að gera eitthvað ögrandi og öðruvísi með sögu um unga konu sem gerist camgirl, eða myndavélastúlka, og hefur útsendingar í gegnum erlenda vefsíðu beint úr rúminu heima hjá sér. Myndin snýst í kringum óvenjulegan söguþráð og setur kynlíf, sjónfróun og blætisdýrkun fyrir miðju, en engu að síður er hún líklega helst ögrandi fyrir það eitt að hafa tvær kvenpersónur í fyrirrúmi og gera reynsluheim þeirra, samtöl og fas að burðarstólpa myndarinnar. Auðvitað ætti að þykja fáránlegt að þurfa að hrósa þessu sérstaklega, en miðað við kvikmyndalandslag samtímans get ég ekki annað, því það var einfaldlega hressandi að upplifa örlitla tilbreytingu í aðalpersónum.

Webcam segir sögu Rósalindar og hefst fyrir síðasta árið í menntaskóla, þar sem hún á í vafasömu kynlífssambandi við kennarann sinn. Rósalind er afar opin gagnvart kynlífi, svo vægt sé til orða tekið, ráfar á milli bólfélaga, eins og til að fylla í eitthvað tómarúm, og í gegnum sambandið við kennarann kynnist hún manni sem er haldinn gægjuhneigð, vill ekki snerta hana, heldur bara horfa. Upp úr því kviknar hugmyndin um að gerast camstelpa og setja sig á svið fyrir fjölda karlmanna úti í heimi, bæði til að þéna pening en líka til að svala einhvers konar viðurkenningarfíkn, sem erfitt er þó að henda reiður á. Hún blokkerar Ísland í útsendingum sínum og heldur starfinu leyndu fyrir öllum nema bestu vinkonu sinni, Agú. Myndin fylgir síðan Rósalind og Agú eftir, þar sem þær útskrifast úr menntaskóla og byrja að leita fótfestu fyrir fullorðinsárin. Agú hyggur á listnám, en Rósalind er frekar stefnulaus og eyðir mestum tíma í vefmyndavélina, ásamt því að reyna að halda uppi sambandi við stráka og staðsetja sjálfa sig í lífinu. 

Óhefðbundinn söguþráður
Í raun er nokkuð margt líkt með Webcam og Albatross, þannig séð. Karlarnir í Webcam eru flestir hálfgerðir kjánar, koma inn sem kynferðisleg viðföng fyrir Rósalind, fyrir utan einn sem hún reynir virkilega að mynda tilfinningasamband með. Myndin er þroskasaga vinkvenna og virðist, líkt og Albatross, byggja að einhverju leyti á umhverfi og reynsluheimi aðstandenda myndarinnar. Að sama skapi er meginuppistaða beggja mynda samtöl félaga á milli. Webcam reynir hins vegar að fara óhefðbundnar leiðir, bæði varðandi viðfangsefnið sjálft, en líka varðandi samband vinkvennanna, enda er myndin langsterkust í samspilinu á milli Rósalindar og Agú. Vinátta þeirra skín í gegn og heldur myndinni alfarið uppi. Samtölin eru skemmtilega skrifuð, óvenjuleg og oft mjög fyndin, en eiga til að verða einum of hnyttin, ef svo má að orði komast, þar sem allir keppast við að segja eitthvað sniðugt. Stíllinn minnir þannig af og til á bandaríska sitcom grínþætti, þar sem allir þurfa að vera orðheppnir, og samtölin virka stundum skrifuð og gervileg fyrir vikið. Ég fékk líka af og til á tilfinninguna að margar persónur væru með sömu röddina. Samtalsstílinn gengur þannig stundum mjög vel upp, stundum ekki, en er áberandi góður og frumlegur á heildina litið, húmorinn lifandi og skemmtilegur, og þegar myndin nær rétta flæðinu tekst hún alveg á flug.

Webcam er annars mjög ójöfn mynd og þótt mér hafi líkað hún vel almennt séð, þá flöktir hún töluvert alveg í gegn. Leikurinn er mistækur, en mjög fínn hjá aðalleikkonunum, sem skiptir auðvitað langmestu máli, og sérstaklega er Telma Huld grípandi í hlutverki Agú, þótt Anna Hafþórsdóttir sé ekki síðri sem hin dofna og stefnulausa Rósalind. Söguþráðurinn er líka á töluverðu reiki fram og aftur, sérstaklega í seinni hlutanum, og myndin er í raun mun lengri en hún þyrfti að vera. Ég fékk á tilfinninguna að liðið að baki hennar væri nokkuð náinn hópur, sem getur verið mjög jákvætt upp á stemninguna sem smitast yfir á tjaldið, en að sama skapi varhugavert þegar kemur að því að klippa út og stytta, og Webcam hefði vissulega grætt á því að fá forhertan klippara til að grisja myndina aðeins. Mikið er af litlum atriðum sem virka dálítið eins og sketsar úr grínþætti og ganga sum hver upp, en eiga líka til að falla kylliflöt, og myndin hefði styrkst töluvert með meiri þéttingu.

Mynd sem forðast óþarfa sjónfróun
Að lokum verð ég aðeins að ræða kynlífið í myndinni, enda er hún bönnuð innan sextán og afdráttarlaus í framsetningu á nekt. Þegar ég fór á myndina var ég helst með áhyggjur af því hvernig leikstjórinn myndi vinna með sjónfróunina, skiljanlegt áhyggjuefni í mynd sem snýst um konu sem setur sig á svið fyrir karlmenn til að glápa á, því það er afar auðvelt að endurtaka leikinn innan kvikmyndarinnar og hlutgera persónurnar myndrænt séð á svipaðan hátt, meðvitað eða ómeðvitað. Webcam byrjar alls ekki vel upp á þetta, sérstaklega þótti mér upphafsatriðið setja kolrangan tón fyrir myndina og virka tilgerðarlegt, en þrátt fyrir einstaka búta þar sem myndin fer aðeins inn á grátt svæði og dettur inn í að stilla Rósalind upp fyrir áhorfendurna úti í sal, þá tekst henni að mestu leyti að forðast óþarfa sjónfróun og nær að koma kynlífsefninu furðuvel til skila, án þess að draga athyglina frá kjarna myndarinnar. Vissulega er Webcam dónaleg og hispurslaus í tali og myndefni, því verður ekki neitað, en hún nær að yfirstíga það sem gæti auðveldlega orðið aum afsökun til að selja miða í gegnum hneyksligildi og sjónfróun með því að segja áhugaverða sögu um áhugaverðar persónur. Þótt Webcam sé alls ekki gallalaus mynd, þá kom hún mér reglulega á óvart, því hún hefur sinn sjarma, sinn eigin tón, og gaman verður að fylgjast með næstu verkefnum leikstjórans og leikaraliðsins, og ég vona enn fremur að við fáum að sjá fleiri bitastæð íslensk kvenhlutverk í bíó áður en langt um líður.