Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur óskað eftir því að fjármálaráðuneytið kanni möguleika á því að skattleggja kaup á auglýsingum í erlendum netmiðlum. Fimm milljarðar fóru í auglýsingar á síðasta ári.
Árið 2018 voru keyptar auglýsingar fyrir rúma fimm milljarða - hálfum milljarði minna en árið á undan.
Mest fór í auglýsingar í prentmiðlum, sjónvarps- og útvarpsauglýsingar tóku einnig stóran hluta ásamt vefauglýsingum - á innlendum og erlendum miðlum. 7,4 prósent fóru í aðrar auglýsingar, líkt og á útiskiltum og í kvikmyndahúsum.
Töluverð breyting hefur orðið á hlutdeild miðla á auglýsingamarkaði síðan 2014. Prentmiðlar höfðu 37 prósent en hafa 24 prósent nú og í sjónvarpi og útvarpi hefur hlutfallið lækkað í 24 og 16 prósent. Auglýsingum á innlendum vefmiðlum hefur hins vegar fjölgað, og voru í fyrra tæp 20 prósent, erlendir vefmiðlar eru komnir upp í 7 prósent sem og auglýsingar á útiskiltum, kvikmyndasölum og öðru.
Tekjur RÚV árið 2018 af sölu auglýsinga og kostunar voru rúmlega tveir milljarðar króna. Samkvæmt greiningu Hagstofu Íslands er hlutdeild RÚV í heildartekjum af auglýsingum á Íslandi um 16 prósent en 84 prósent renna til einkarekinna fjölmiðla. Sé horft til heildartekna fjölmiðla, að teknu tilliti til áskrifta, auglýsinga og útvarpsgjalds, þá var RÚV með 22% af heildartekjum fjölmiðla árið 2017 og hefur hlutdeildin minnkað jafnt og þétt á síðustu árum.
Vefmiðlar fengu rúman fjórðung þess auglýsingafjár sem ráðstafað var í gegnum birtingahús í fyrra. Innlendir vefmiðlar eiga stóran hluta af þeim markaði, með 73 prósent en erlendir vefmiðlar 27 prósent.
Í umræðunni um að taka RÚV af auglýsingamarkaði hefur heyrst að menn óttist að auglýsendur leiti í auknum mæli í erlenda netmiðla, líkt og Facebook og Google. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur því óskað eftir því að fjármála- og efnahagsráðuneytið kanni möguleika á því að skattleggja kaup á auglýsingum í erlendum miðlum. Slík umræða hefur einnig verið í alþjóðastofnunum og ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins, um skattlagningu á stafrænni þjónustu yfir landamæri.