Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sem hefur lýst yfir harðri andstöðu við 3. orkupakkann, segir sérkennilegt og skondið að fylgjast með því að menn hafi ekki önnur rök fyrir innleiðingu orkupakkans en að það hafi ekki verið komið í veg fyrir hann áður en hann varð til. Hann segir að þingmenn flokksins hafi ekki vitað af fundi utanríkismálanefndar með Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins, og kallaði heimsókn hans „óvænta uppákomu“.

Sigmundur Davíð var gestur í sjónvarpsfréttum í kvöld . Þar vísaði hann því á bug að hann hefði, þegar hann var forsætisráðherra, getað stöðvað þetta ferli. Hann sagði þriðja orkupakkann ekki hafa komið inn í hina svokölluðu EES-nefnd fyrr en 2017 og þá hafi Norðmenn strax lýst yfir miklum efasemdum. „Þeir afgreiddu þriðja orkupakkann með miklum fyrirvörum sem síðan virðast ekki hafa haldið,“ sagði Sigmundur Davíð í sjónvarpsfréttum í kvöld.

Sigmundur sagði sérkennilegt og skondið að fylgjast með því að menn hefðu ekki önnur rök fyrir innleiðingu orkupakkans en að það hafi ekki verið komið í veg fyrir hann áður en hann varð til.  

Sigmundur hefur sagt þriðja orkupakkann stórhættulegan og sagði það bara nægja að lesa lýsinguna á tilgangi hans. Hann ætti að tryggja samtengingu en einnig aukna samkeppni með uppbroti fyrirtækja þar sem öll orka yrði sett í einn pott. Hún yrði síðan seld úr þeim potti þar sem ESB legði línurnar sem myndi þýða að verðið myndi hækka verulega.

Þetta er ekki í samræmi við sameiginlega yfirlýsingu Íslands, Noregs og Liechtenstein á fundi í sameiginlegu EES-nefndinni fyrir tveimur dögum. Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins kom fram að þar væri sérstaða Íslands hvað varðar innri raforkumarkað áréttuð og tekið fram að stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans, þau sem varði viðskipti og grunnvirki fyrir raforku yfir landamæri, hefðu ekki gildi eða neina raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan engin raforkustrengur væri til staðar. Þá væri ítrekað að yrði samtengingunni komið á í framtíðinni myndi ESA, eftirlitsstofnun EFTA, úrskurða um ágreiningsmál varðandi Ísland en ekki ACER en það er samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði.

Þá lagði iðnaðarráðherra fram frumvarp samhliða þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um þriðja orkupakkann þar sem kveðið var á um að það þyrfti samþykki Alþingis fyrir lagningu sæstrengs sem tengdi raforkukerfi Íslands við raforkukerfi annars lands.

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður, spurði Sigmund síðan út í fjarveru Miðflokksins á fundi utanríkismálanefndar þar sem Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTA dómstólsins, var meðal gesta.  Sigmundur kallaði heimsókn Baudenbacher „óvænta uppákomu“ sem hafi átt að vera óvæntur glaðningur og sagði þennan fund ekki hafa verið á fundardagskrá. „Allir þingmenn flokksins voru í húsi á hinum ýmsu fundum og að sjálfsögðu hefðu menn viljað vera á þessum fundi hefðu þeir vitað því.“

Fundurinn með Baudenbacher var auglýstur á vef Alþingis miðvikudaginn 8.maí. Á fimmtudagsmorgun var síðan birt frétt á vef RÚV um umsögn Baudenbacher sem var forseti EFTA-dómstólsins þegar dómurinn kvað upp dóm sinn í Icesave-deilunni. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður nefndarinnar, sagði á Facebook-síðu sinni fyrr í dag að til fundarins hefði verið boðað með bæði SMS-skilaboðum og tölvupósti á miðvikudag.  „Miðflokksmenn hreinlega gleymdu eða kusu að mæta ekki,“ skrifaði Áslaug.

Undir þetta tók Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sinni í kvöld. „Staðreyndin er sú að Miðflokksmenn hafa ekki treyst sér til að eiga orðastað við Bau­den­bacher, sem er vel að merkja enginn ESB-snati heldur fyrrverandi dómari við Efta-dómstól sem á sínum tíma dæmdi Íslendingum í vil í Icesavemálinu.“

Sigmundur sagði aftur á móti merkilegt hvernig reynt væri að afvegaleiða umræðuna með einhverju sem skipti engu máli eins og fjarveru þeirra á þessum fundi. Menn hlytu að vilja skoða staðreyndir málsins og besta leiðin til þess að væri kynna sér regluverk ESB og hver tilgangurinn með þessum orkupakka væri.