Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri samfélagsmiðlastofunnar Sahara, segir erfitt að nálgast leiðbeiningar hjá Neytendastofu um það hvernig áhrifavöldum beri að merkja kostaðar auglýsingar. Reglur þurfi að vera skýrari og aðgengilegar. Davíð ræddi áhrifavalda og duldar auglýsingar í Morgunútvarpinu í morgun.
Neytendastofa birti úrskurð í vikunni þess efnis að fyrirtækjunum Sahara Media ehf. og Origo hf. ásamt tveimur bloggurum á vefsíðunni Trendnet.is hafi verið bannað að nota duldar auglýsingar á samfélagsmiðlum. Fyrirtækið Sahara leiddi Orego og bloggarana tvo saman og sá um samskipti þeirra á milli. Bloggararnir höfðu birt bloggfærslur þar sem fjallað var um myndavélar sem fengnar voru að gjöf frá fyrirtækinu Origo, án þess að tekið væri fram að um kostaða auglýsingu væri að ræða. Davíð segir að samskiptaleysi hafi valdið því að að merkingar við færslurnar hafi ekki verið nægjanlega skýrar.
„Við erum alla daga ársins að vinna með áhrifavöldum og erum að tengja þá saman við fyrirtæki og í þessu tilviki gerðum við það og svo er ákveðin samskiptaleysi sem verða þarna síðasta vetur og svo gerist það bara að þessir bloggarar eru kannski ekki að nota #samstarf, #ad eða hvað, sem enginn veit hvað á að nota. Það er hvergi sagt í neinu regluverki eða neins staðar hvað á að nota. Þær telja þetta upp sem gjöf og svo kemur bara bréf á þessa fjóra aðila og svo þessi úrskurður núna í vikunni. “
Davíð segir nauðsynlegt að farið sé eftir reglum en gagnrýnir það að reglur Neytendastofu séu ekki skýrar og að auki óaðgengilegar. Davíð segir að fyrirtækið Sahara biðji samstarfsaðila sína um að merkja færslur með viðeigandi hætti og taka fram að um samstarf eða auglýsingu sé að ræða. Þau hafi aftur á móti ekki vitað að taki beri fram efst í færslum að um auglýsingar sé að ræða, eins og Neytendastofa bendir á í úrskurði sínum.
„Neytendastofa vill meina að það eigi að vera tekið fram efst í færslum að um auglýsingu sé að ræða, svo lesendur viti fyrir lestur að greitt hafi verið fyrir færsluna. Við vissum það ekki – það veit það enginn. “
-Og er það hvergi skráð?
„Þá verð ég bara að „gúggla“ betur. Ég er búinn að „gúggla“ í allt sumar og reyna að finna leiðbeiningar um það hvernig maður eigi að haga sér sem áhrifavaldur eða auglýsingastofa. Það er ekkert til.“
Hann segist ekki vilja verja þetta tiltekna mál sem Neytendastofa hafi tekið fyrir en gagnrýnir það að frekari upplýsingar vanti fyrir þá sem starfi á sviði auglýsinga á samfélagsmiðlum.
„Internetið er grátt svæði. Það er bara þannig. En við sem erum að vinna í markaðsmálum viljum að þetta sé gert rétt og þá þarf bara að koma með leiðbeinandi reglur, “ segir Davíð.
Hlusta má á viðtalið við Davíð í heild sinni í spilaranum hér að ofan.