Kristín Eiríksdóttir lagði nýverið lokahönd á nýja ljóðabók sem vonir standa til að rati í hendur lesenda síðar á árinu. Kristín fjallaði um listina, ljóðin, sannleikann og sjálfsblekkinguna í Tengivagninum.

Lesendum Hvítfeld, fyrstu skáldsögu Kristínar Eiríksdóttur sem kom út árið 2012, brá mörgum í brún þegar þeir komust að því að bókin er ekki öll þar sem hún er séð. Sagan vekur upp áleitnar spurningar um sannleika og lygar og hvort unnt er að greina þar á milli í listum og tilverunni sjálfri. Kristín ætlaði sér að ræða þema þáttarins, sannleika, en sneri hugtakinu á hvolf og fjallaði um sjálfsblekkinguna. „Þegar ég fór að hugsa um sannleikann þá áttaði ég mig á að ég var alltaf að hugsa um lygar, ekki sannleika,“ segir hún.

Hún segir það vera í eðli sannleiksleitar að leita ekki að ákveðinni niðurstöðu og að leitandinn þurfi að sætta sig við að vegferðinni ljúki aldrei. „Þetta hugtak og þessi iðja, að vera sannleiksleitandi, felur alltaf í sér að maður þarf að sprengja sannleikann sem maður finnur. Maður afhjúpar og afhjúpar og það er nauðsynlegt að halda því áfram því um leið og maður telur sig hafa komist að niðurstöðu er maður kominn að lygi.“ Hún segir að á sama hátt og sannleiksleitin endi ekki með ákveðinni niðurstöðu þá sé sorgarferli líka eilíft ferli. „Það er enginn endir á sorginni. Það er ekki slæmt í sjálfu sér en maður verður í raun önnur manneskja eftir að maður lendir í einhverju. Sorgin gefur okkur skilning.“

Kristín Eiríksdóttir lauk nýverið við nýtt ljóðahandrit sem hún bindur vonir við að komi út í ár en það ber heitir Kærastinn er rjóður. Ljóðin segir hún að stóru leyti fjalla um ástarsambönd. „Ég er að reyna að komast inn í efnisheiminn í þessari bók. Sammannlegan raunveruleika. Þetta er aðgengileg bók um hlutverk sem fólk fer í í ástarþrá.“

Sannleiksleitin sjálf á frekar heima í listinni en ekki í fréttaflutningi, að mati Kristínar, í heimi þar sem sannleikurinn er í raun á floti. „Mér finnst fréttir einkennast af afhjúpunum. Við erum kíkja bak við tjöldin,“ segir Kristín hugsi yfir ástandinu í samfélaginu. „Það er stemning fyrir því að benda á fólk og segja að viðkomandi sé vondur, en það er einföldun, við verðum að skoða hvers vegna hann er vondur. Það er mikilvægt að slökkva ekki á greiningarvélinni. Það er kveikt á henni í listum. Maður nennir ekki að lesa bók sem sýnir bara eina hlið eða segir bara einn sannleika. Listamaðurinn er alltaf krafinn um að kafa dýpra.“ 

Halla Þórlaug Óskarsdóttir og Kristján Guðjónsson ræddu við Kristínu Eiríksdóttur í Tengivagninum en innslagið má hlýða á í spilaranum efst í fréttinni.