„Ég er sáttur við tímann en ég er smá sorgmæddur. Ég vildi vinna gull fyrir ástína mína Stefaníu,“ sagði sundmaðurinn Jón Margeir Sverrisson eftir úrslitasundið í 200 metra skriðsundi á Ólympíumótinu í Ríó í kvöld þar sem hann varð í 4. sæti. Hann ætlar að snúa sér að þríþraut.

Hann synti 200 metrana á fínum tíma, 1,57,50 mínútum. Það er 56 hundraðshlutum úr sekúndu frá hans besta tíma. „Tíminn er betri en ég bjóst við. Þetta var smá erfitt í lokin.“

Ætlar í þríþraut

Jón Margeir á enn eftir að keppa í tveimur greinum í Ríó, 100 metra bringusundi og 200 metra fjórsundi en það eru ekki hans sterkustu greinar. „Svo ætla ég að kveðja sundið, eða ekki beint kveðja, en fara í aðra íþrótt sem mig langar í.  Ég held að þríþrautin sé eina greinin sem ég get náð meiri árangri í.“ sagði Jón Margeir í tilfinningaþrungnu viðtali við RÚV.

Viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.