Jólatréð sem sett verður upp á Ráðhústorginu á Akureyri kemur frá Randers í Danmörku eins og síðustu ár. Akureyringur segir að sú venja sé barn síns tíma og skjóti skökku við. Það sé óþarfi að sigla með tré frá útlöndum þegar Kjarnaskógur sé í túnfætinum.
Aðalheiður Ingadóttir, sem þarf að fella stórt grenitré í garðinum sínum, spurði Akureyrarbæ hvort það væri áhugi á að hafa það sem jólatré á Ráðhústorginu í ár. Það var afþakkað enda fengi bærinn jólatré að gjöf frá vinabæ sínum Randers í Danmörku. Það er um 30 ára gömul hefð.
Aðalheiður segist hafa orðið alveg bit yfir þessum svörum. Hún taldi víst að jólatrjáagjöfum milli landa hefði verið hætt fyrir lifandis löngu, þetta væri barn síns tíma. Hún hefði sagt Akureyrarbæ að það væru enn tveir mánuðir til stefnu og það væri hægt að afpanta tréð. Þetta snúist ekki um tréð hennar, Akureyrarbær þurfi ekki að nota það, en það sé alveg galið að sigla með tré frá Danmörku til Íslands þegar það sé blússandi uppgangur í skógrækt og Kjarnaskógur rétt hjá.
Úr takti við áherslu bæjarins á umhverfismál
Guðríður Erla Friðriksdóttir er sviðsstjóri Umhverfis- og mannvirkjasviðs hjá Akureyrarbæ. Spurð að því hvort þetta sé ekki úr takti við þá ríku áherslu sem bærinn leggur á umhverfismál segir hún að það geti vel verið, þetta sé eitthvað sem þurfi að skoða. Nú sé miklu meira af trjám í bæjarlandinu en fyrir 30 árum þannig að í sjálfu sér ætti að vera hægt að nota heimaræktað tré sem væri jákvætt spor fyrir bæinn. Hún segir koma til greina að hætta þessum gjöfum en það þurfi að ræða við Randers.
Hefur komið til tals að hætta þessum gjöfum?
„Það hefur örugglega verið rætt einhvern tímann en ekki verið tekin ákvörðun um að hætta. En alveg góð ábending um að skoða hvort við eigum að gera þetta með einhverjum öðrum hætti“ segir Guðríður.
Akureyri ekki eini bærinn
Svona gjöfum hefur farið fækkandi síðustu ár en Akureyrarbær er þó ekki eini bærinn sem fær sent tré að utan. Hafnfirðingar fá til dæmis tré frá Þýskalandi. Þá þekkist líka að tré séu send héðan til vinabæja í útlöndum og má þá nefna Fljótsdalshérað sem gefur vinum sínum í Runavík í Færeyjum tré. Sveitarfélagið Árborg tekur tré sem fólk vill losna við úr einkagörðum og nýtir sem jólatré.