Jólalag dagsins er jólalag Ríkisútvarpsins frá árinu 1997 en það var samið af Tryggva M. Baldvinssyni við ljóð Davíðs Stefánssonar, Jólakvöld.

Lagið er stórt og mikilfenglegt og flutningur þess sömuleiðis, en að því koma hvorki meira né minna en fimm kórar: Drengjakór Laugarneskirkju, Gradualekór Langholtskirkju, Dómkórinn, Mótettukór Hallgrímskirkju og Skólakór Kársness. Það er Guðmundur Emilsson sem stjórnar og Marteinn H. Friðriksson leikur á orgel.

Árið 1987 hófst sú hefð hjá Ríkisútvarpinu að fá íslenskt tónskáld til að semja nýtt jólalag fyrir hver jól sem síðan er frumflutt á Rás 1 undir yfirskriftinni Jólalag Ríkisútvarpsins. Mörg verkanna eru löngu orðin hluti af íslenskri jólahefð og Rúv.is telur niður dagana til jóla með einu lagi á dag.