Útflutningsverðmæti sjávarafurða gæti orðið það mesta síðustu ár og hver ferðamaður skilur meira eftir sig. Þrátt fyrir samdrátt í fiskveiðum og fækkun ferðamanna eru jákvæð teikn á lofti í hagkerfinu, segir hagfræðingur.

Fiskaflinn í júní var þrjátíu og þremur prósentum minni en í sama mánuði í fyrra. Það skýrist af því að enginn uppsjávarafli fékkst í júní. Botnfisksaflinn hefur þó líklega aldrei verið verðmætari en fyrri hluta þessa árs.

Líklega mestu útflutningsverðmæti síðustu ára

Elvar Orri Hreinsson, hagfræðingur hjá greiningardeild Íslandsbanka, segir breytta samsetningu aflans hafa gert botnfiskstegundirnar verðmætari.  „Þá erum við að sjá að verð á sjávarafurðum á alþjóðamörkuðum hefur verið að hækka og gengi krónunnar að veikjast sem kemur sér vel fyrir útflutningsgreinar þjóðarbúsins," segir hann.

Að því gefnu að hagfelld þróun gengis og heimsmarkaðsverðs sjávarafurða gangi ekki til baka á síðari hluta árs, sé líklegt að útflutningsverðmæti geti orðið meiri en undanfarin þrjú ár þrátt fyrir loðnubrest. „Við erum að sjá að útflutningsverðmæti sjávarafurða gætu vel farið yfir 250 milljarða í fyrsta skiptið síðan 2015 á þessu ári," segir Elvar.

Hver og einn ferðamaður verðmætari en áður

Þá sýna nýjar tölur Hagstofunnar að ferðamönnum fækkaði um 17 prósent í júní frá sama mánuði í fyrra. Þrátt fyrir það séu jákvæð teikn á lofti í ferðaþjónustu. „Þrátt fyrir neikvæða umræðu að undanförnu og talsverða fækkun ferðamanna þá virðist hver einasti ferðamaður vera að skilja eftir sig aukin verðmæti hér á landi," segir Elvar. „Sú þróun í bland við aukin verðmæti í sjávarútvegi er auðvitað afar jákvætt fyrir okkur og til þess fallið að milda þann samdrátt sem nú blasir við," segir hann.

Áfram sé reiknað með hálfs til eins prósents samdrætti í hagkerfinu. Elvar segir það mestu máli skipta að snúa við blaðinu strax á næsta ári.  „Þannig við séum ekki að fara inn í langvinnan samdrátt og við erum nokkuð bjartsýn að það muni takast," segir Elvar Orri.