Íslenska undirheimamyndin Eden í leikstjórn Snævars Sölvasonar var frumsýnd á dögunum og er þetta þriðja kvikmynd leikstjóra. Kvikmyndin var til umfjöllunar í Lestarklefanum þar sem Dagur Hjartarson skáld hreifst af leikstjóranum og ákvörðunum hans.

Kvikmyndin Eden er blanda af spennu og kómík og segir frá parinu Lóu og Óliver sem framfleytir sér með fíkniefnasölu. Parið þráir ekkert heitar en að elta drauma sína en þegar þau lenda upp á kant við myrka undirheimana ákveða þau að taka málin í sínar hendur, hefst þá barátta upp á líf og dauða. Leikstjórinn Snævar Sölvason á að baki gamanmyndina Albatross, sem sýnd var við góðar undirtektir árið 2015 og sömuleiðis Slay masters árið 2011. Aðalhlutverkin eru í höndum þeirra Telmu Huldar Jóhannesdóttur og Ævara Arnar Jóhannssonar, Hansel Eagle, en hann lék einnig í gamanmyndinni Albatross. Gestir Guðrúnar Sóleyjar í Lestarklefanum voru þau Jörundur Ragnarsson leikari, Dagur Hjartarson skáld og Sandra Barilli, verkefnastjóri.

Dagur Hjartarson fór í bíó með fyrirfram ákveðnar væntingar sem sneru að því að þetta væri vissulega þriðja mynd leikstjórans en að sama skapi gerð með takmörkuðu fjármagni. „Maður fer með ákveðnar væntingar þegar maður horfir á þannig myndir, af því maður veit hvað það kostar mikla peninga að búa til bíó og hvað það er rosalega mikil vinna. Maður dáist því að öllum þeim sem bara klára myndir, til dæmis án þess að fá styrk frá Kvikmyndasjóði. Það útdeilir mikinn kjark og staðfestu. Mér fannst myndin heilt yfir koma mér á óvart, hún var aðeins öðruvísi en maður hélt. Mér fannst hún ekki byrja nógu vel, persónurnar heldur óljósar til að byrja með, “ segir Dagur sem var ekki viss hvar draumar og þrár aðalpersónanna lágu.
 
„Að því sögðu þá fannst mér myndin vinna á, eiga góða spretti. Mér fannst áhugavert þegar leikstjórinn þorði að taka stórar ákvarðanir. Hann þorði að brjóta upp myndina með abstrakt senum af tveimur ungbörnum sem halda á eggjum og þorði í lokin að brjóta upp myndina, fara með mann í ákveðið ferðalag. Ég hugsaði bara, já! Gott hjá þér að taka áhættu og þessi mynd var ekki eins og allar aðrar myndir. Það var það sem ég var hræddur við í upphafi, maður sér alls konar senur sem maður hefur séð áður, fólk að snorta kókaín í gegnum glerborð, og álíka skot sem eru kunnugleg. En það var eitthvað hjarta í þessari mynd,“ segir Dagur Hjartarson skáld.

Jörundur Ragnarsson leikari var sammála Degi og hreifst af mörgum djörfum, sjónrænum ákvörðunum leikstjórans. „Það eru ekkert allir sem þora að fara þangað og það var alls ekkert fáránlegt í því samhengi. Ég er sammála því að hún vann á, hún var dálítið klaufaleg í uppghafi. Ég keypti ekki sambandið milli þessara tveggja aðalpersóna svo lítur maður fram hjá því þegar lengra er komið inn í myndina. Þarna er verið að fjalla um undirheima Reykjavíkur með einhverju grínívafi og líka mikilli sorg,“ segir Jörundur sem er efins um að þessir tveir frásagnarstílar gangi vel saman. „Ég fann eiginlega ekki til með neinum og karakterarnir voru ekki heldur tengdari því en þetta. Svo líka hvernig fjallað var um eiturlyf í myndinni. Það var ekki böl, ekki heldur bara gaman. Það var ekki nógu skýrt hvaða sýn aðstandendur hafa gagnvart heiminum sem þau fjalla um,“ segir leikarinn Jörundur.

Sandra Barilli, verkefnastjóri hjá tónlistarútgáfunni Öldu segir oftar en ekki fara illa fyrir fíkniefnasölum í bíómyndum. „Eins og með allt svona sem inniheldur eiturlyfjadæmi, þá var ég hvað hrifnust að montage-inu, þegar gengur vel. Ég elska það. Það voru tvö svoleiðis atriði í myndinni. Í gegnum vídeóspólur í Kolaportinu, merktar Disney og fleiru, mér fannst það geggjað,“ segir Sandra. „Hins vegar finnst mér ekki gaman að horfa á fólk sem finnur eiturlyf og ákveður að selja þau. Af því að það gengur aldrei vel. Það er búið að segja okkur það svo oft. Ég hugsaði að ég gæti gert þetta en nei, það er búið að segja mér það svo oft í bíómyndum að þetta er ekki hægt. Ef þú finnur magn ad eiturlyfjum og reynir að koma þeim í sölu, þú lendir alltaf í klemmu. Ég hef ekki lent í þessu ennþá en væri til í að prófa og sjá hvort mér tækist betur til,“ segir Sandra en bætir því blessunarlega við að hún sé að gantast.