Lítið mál er að gera Ísland kolefnislaust fyrir árið 2040 ef litið er til bílaflotans, að sögn Jóns Björns Skúlasonar, framkvæmdastjóra Íslenskrar Nýorku. Ísland sé í fremstu röð í heiminum í notkun á vistvænu eldsneyti í heiminum og um 9% af samgönguflotanum styðjast við vistvænt eldsneyti. Hann segist þó hafa verulegar áhyggjur af sjávarútveginum og skipaflotanum. Án ívilnana og aðstoðar frá yfirvöldum sé ólíklegt að ísland geti náð markmiðum sínum um kolefnisleysi.

Jón Björn segir í samtali við Morgunvaktina á Rás1 í morgun að markverður árangur hafi náðst á þeim 20 árum sem Íslensk Nýorka hafi verið starfandi. „Samkvæmt nýjustu tölum erum við komin með 9% vistvænu eldsneyti í samgönguflotann. Við erum í fremstu röð í heiminum í notkun á vistvænu eldsneyti í heiminum, það er náttúrulega mörgu að þakka. Við búum svo vel að eiga frábæra endurnýjanlega orkulind hérna sem er rafmagnið okkar. Það er hægt að nota á fjölbreyttan hátt. Ég sé ekkert nema tækifæri framundan að auka þennan hlut mjög hratt.“

Íblöndunarskylda olíufélaganna og aukin vitund almennings sé þar að baki. Um 8000 twin bílar eru á götum landsins, á þriðja þúsund hefðbundinn rafmagnsbíla, nokkrir vetnisbílar og talsverður floti Metan bíla. „Svo þegar við förum að sjá stærri tæki koma á vistvæna orku eins og strætisvagnanna, það eru tveir metan vagnar og það eru fjórtán rafmagnsstrætisvagnar í umferð, það mun breyta hlutfallinu mjög hratt þegar okkur tekst að innleiða vistvænt eldsneyti á flotann á stærri bíla og trukka.“ segir Jón Björn. 

Aðspurður hvort það sé raunhæft markmið að Ísland verði kolefnislaust 2040 segir Jón Björn það vera auðvelt ef litið er eingöngu til bílaflotans. Bílaflotinn sé endurnýjaður á 10 ára fresti en skipaflotinn verði hins vegar vandamál. „Það sem ég er að vona með 2040 dagsetningu og helst auðvitað 10 árum fyrr að það sé ekki eitt einasta skip flutt til landsins sem keyrir á jarðefnaeldsneyti 2040. Skip endast í 50 ár en ekki 10 ár eins og bíllinn.“

Grípa þurfi til aðgerða og hefja strax samtal um hvernig megi tækla sjávarútveginn. „Það er ekki hægt að labba út og segja sjávarútveginum að kaupa rafmagnsskip, eða vetnisskip eða metanskip. Ég held að við þurfum að huga að ívilnunum og eiga samtal milli hins opinbera og til dæmis SFS um hvernig hægt er að taka þessi fyrstu skref. Þetta eldsneyti er dýrara í dag, það er ekki aðgengilegt alls staðar, nánast á engum höfnum er hægt að fá þetta eldsneyti þannig það verður að eiga sér stað talsvert samtal áður en við getum þetta.“