Mafían á Ítalíu hefur lengi mengað landið með eiturefnaúrgangi. Það var mengunin en ekki ofbeldið sem fékk mafíuforingjann Carmine Schiavone til að vitna gegn mafíufélögum sínum.

Nefnd á vegum ítalska þingsins er nú að rannsaka ógnvænlega aukningu í krabbameinstilfellum í nágrenni Napolí og hvort þau stafi af eiturefnalosun ítölölsku mafíunnar á síðustu áratugum. Mafían hefur fengið gríðarlega arðsama samninga um losun eiturefna sem iðulega eru urðuð með ólöglegum og ódýrum hætti. Það eru tveir áratugir síðan læknar tóku eftir aukinni útbreiðslu krabbameins í héraðinu í kringum Napolí. Frá þeim tíma hefur greindum æxlum í konum fjölgað um fjörutíu prósent og fjörutíu og sjö prósent hjá körlum. 

Mafíuforinginn Carmine Schiavone, var lengi í forsvari fyrir glæpahóp sem urðaði ólöglega eiturefni í ítalska mold. Hann segir í samtali við BBC að afleiðingar þessarar mengunarstarfsemi hafi leitt til þess að hann ákvað að gerast uppljóstrari lögreglunnar - ekki allt ofbeldið og morðin. Carmine Schiavone bar vitni gegn mafíufélögum sínum í Spartacus Maxi réttarhödlunum. Hann var um tíma leiðtogi Casalesi mafíunnar sem var hluti af hinum illræmdu mafíusamtökum Camorra í Napolí. Hann snérist gegn félögum sínum og gerðist uppljóstrari en "penito" á ítölsku sem merkir eiginlega fullur iðrunar. 

Stjórnmál og glæpir

Carmine Schiavone fæddist inn í efnaða fjölskyldu fyrir sjötíu árum í borginni Casal di Principe. Nafnið á mafíunni er dregið af borgarnafninu, Casalesi. Hann gekk í skóla sem rekinn var af nunnum, var góður námsmaður og útskrifaðist sem endurskoðandi. Kærasta hans var dóttir mafíósa í Camorra mafíunni og hann var farinn að ganga um með byssu nítján ára gamall. Hann skaut lögreglumann sem stoppaði hann á leið í fótbolta. Í fangelsinu voru morð og ofbeldi daglegt brauð en Schiavone var undir verndarvæng mafíósa sem hann vann fyrir. Utan fangelsismúranna vann hann sig hratt upp metorðastigann. 
Mafaín náði tangarhaldi á flestum sviðum viðskipta, innheimti verndarfé, sinnti  vafasömum verktakaframkvæmdum, sorpeyðingu og svo mætti lengi telja. Stjórnmálamenn höfðu þeir í vasanum og dómarar voru kúgaðir til samvinnu. Schiavone varð sjálfur þingmaður Kristilegra demókrata sem réðu lögum og lofum í landinu í áratugi. Hann segir að stjórnmálin hafi verið mikilvæg í starfsemi glæpahópanna sem ætíð hafi getað gengið að atkvæðum fjölmargra þingmanna vísum. Hann fullyrðir þó að þeir hafi starfað með öðrum hætti en mafían á Sikiley sem hikaði ekki við að drepa stjórnmálamenn og dómara. Það hafi Casalesi ekki gert þótt þeir hafi vissulega beitt áhrifamiklum þrýstingi og hótunum. Morð voru daglegt brauð en Schiavone veit ekki hversu margir tugir voru drepnir að hans skipun. Það voru þó ekki morðin sem fengu hann til að snúast gegn omertu mafíunnar eða þagnarheitinu, heldur eiturefnalosunin. Í baráttu glæpagengja féllu fjandmenn en mengunin drepur saklausa borgara. 

Sjö hundruð ára fangelsi

Schiavone varð aðalvitni yfirvalda í Spartacus Maxi réttarhöldunum sem nefnd voru eftir skylmingaþrælnum sem leiddi þrælauppreisnina í Róm til forna. Réttarhöldin voru sögð uppreisn gegn mafíuforingjunum sem höfðu þjóðina í hlekkjum. Réttarhöldin stóðu yfir í áratug og fimm hundruð vitni voru leidd fyrir dómarann. Fimm vitni voru myrt meðan á réttarhöldunum stóð og minnstu munaði að Schiavone yrði drepinn. Að lokum voru sextán foringjar í Camorra mafíunni dæmdir til lífstíðar, samtals í sjö hundruð ára fangelsi. Fimm árum síðar lifir mafían góðu lífi og Schiavone segir að ekki hafi tekist að láta kné fylgja kviði. Spillingin sé enn til staðar og ekki síst mengunin. Hagnaður mafíunnar var gríðarlegur og var að stórum hluta komið til útlanda. Schiavone fullyrðir að þegar glæpaferill hans hafi verið á enda hafi ríkið gert upptæka yfir hundrað þúsund milljarða frá fjölskyldunni.