Menningarmálaráðherra Ísraels gagnrýndi uppátæki Hatara-flokksins í Eurovision við upphaf ríkisstjórnarfundar ísraelsku ríkisstjórnarinnar í dag.

Þegar sjónvarpsvélarnar beindust að íslenska hópnum eftir að stig Íslands höfðu verið lesin upp í gærkvöldi dró Hatari upp borða með fána Palestínu. Útsendingastjórar klipptu þá snarlega af myndum af Hatara.

Stuttu eftir að myndunum hafði verið sjónvarpað um alla Evrópu mættu öryggisverðir og heimtuðu að Hatari myndi afhenda borðana. Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva hafa fordæmt uppátæki Hatara og segja það brot á reglum keppninnar.

Miri Regev, menningarmálaráðherra í Ísrael, sagði við fjölmiðla í dag að hún teldi uppátækið hafa verið mistök af hálfu Hatara og bætti við að pólitík og menningu ætti ekki að blanda saman.

Matthías Tryggvi Haraldsson, söngvari Hatara, sagði í viðtali við RÚV í gærkvöldi að „ekkert annað“ hafi verið í stöðunni en að veifa palestínsku fánalitunum. „Okkur finnst alltaf mikilvægt að nota listina sem tól til að spyrja spurninga, koma hlutunum út fyrir það samhengi sem þeir eru í og láta fólk velta fyrir sér stóru spurningunum. Þetta var ein leið til þess,“ sagði Matthías.

Hatari var ekki eina atriðið á hátíðinni sem vakti máls á málefnum Palestínu því dansari poppdrottningarinnar Madonnu var með palestínska fánann á bakinu. Madonna hefur ekki tjáð sig um uppátæki sitt.

Regev gagnrýndi einnig ísraelsku sjónvarpstöðina KAN sem hélt keppnina í Ísrael í ár fyrir að mynda ekki fyrir „póstkort“ hátíðarinnar á Vesturbakka Jórdanár. Póstkortin þessi voru sýnd á undan hverju atriði keppninnar þar sem listamennirnir dönsuðu við fjölmörg kennileiti í Ísrael.

Ríkisstjórn Ísrael undir forsæti Benjamin Netanjahú hefur haldið áfram útþenslu Ísraelsríkis á landsvæði Palestínu fyrir botni Miðjarðarhafs. Eftir nýliðnar þingkosningar í Ísrael hefur því verið spáð að ríkisstjórn Netanjahú færi sig enn upp á skaftið gagnvart Palestínu.