Föruneyti Hatara gekk um Eurovision þorpið sem opnað hefur verið á ströndinni í Tel Aviv og spurði vegfarendur hvaða landi þau spá sigri í keppninni. Ísraelsmaður nokkur svaraði spurningunni mjög óvænt: „Ert þú Íslendingur?“

Dagskrárgerðarkonan Björg Magnúsdóttir gekk um á ströndinni í Tel Aviv í dag þar sem nú hefur verið opnað svokallað Eurovision þorp sem er álíka mikið að umfangi og tíu þjóðhátíðir í Vestmannaeyjum. Um er að ræða svæði á ströndinni rétt hjá hóteli íslenska hópsins þar sem matarvögnum og rússíbönum hefur verið komið fyrir ásamt risaskjáum þar sem fólk hefur í vikunni safnast saman og horft á undankeppnirnar.

Björg tók nokkra gesti þorpsins tali og spurði hver væri sigurstranglegastur í keppninni í ár. Fyrstu viðmælendurnir svöruðu að bragði að þau hefðu mesta trú á kýpverska laginu, en þegar Björg spurði Ísraelann Yair Sapir á ensku hverjum hann héldi með spurði hann á móti: „Ert þú Íslendingur?“ Þegar hann fékk sömu spurningu til baka reyndist hann ekki eiga neinar ættir að rekja til Íslands, hann er Ísraeli en áhugamaður um íslenska tungu.

„Ég lærði íslenku í háskólanum í Uppsala og skrifaði ritgerð um íslenska orðmyndun. Ég tala hana mjög illa því ég tala hana svo sjaldan,“ segir Yair á flekklausri íslensku. Hann segir ítalska lagið skora mörg stig hjá samlöndum sínum og hann er sammála því að það sé líklegast til sigurs.

Aðspurður hvers vegna í ósköpunum honum datt í hug að byrja að læra íslensku svarar hann: „Það er alveg ótrúlegt mál. Það hefur svo margt varðveist í málinu en mér finnst hreintungustefnan líka mjög áhugaverð. Við gerum það sama í hebreskunni og forðumst að fá lánuð orð frá öðrum málum.“ Yair hefur sjálfur nokkrum sinnum heimsótt Ísland en segir að erfitt sé að venjast veðurfarinu.

Yair var í samfloti með Marc Volhardt, dönskum vini sínum sem einnig talar tungumálið reiprennandi. Hann býr núna í Reykjavík og segist hafa kolfallið fyrir tungumálinu sem ungur drengur að lesa íslenska bók í dönskutíma „Ég las íslenskan texta í dönskubók og sá öll þessi Ð og Þ og hugsaði hvaða tungumál er þetta eiginlega? Eftir það langaði mig bara að flytjast til Íslands.“ Sagan sem heillaði Marc svo mikið að hann hefur síðan lært tungumálið betur en flestir heimamenn er sagan af tröllskessunni Flumbru eftir Guðrúnu Helgadóttur.

Þegar mennirnir voru beðnir um að senda kveðju til Íslands svaraði Yair: „Shalom og gangi ykkur vel á morgun.“

Rætt var við Marc og Yair í Síðdegisútvarpinu en innslagið má hlýða á í spilaranum hér fyrir ofan.