Dagur íslenskar tungu verður haldinn hátíðlegur fimmtudaginn 16. nóvember, á fæðingardegi skáldsins Jónasar Hallgrímssonar. Af því tilefni flytur Kristján Árnason, prófessor emeritus í íslenskri málfræði og fyrrverandi formaður Íslenskrar málnefndar, fyrirlestur í Lögbergi á vegum Miðaldastofu Háskóla Íslands sem hann nefnir: Upphaf íslenskrar tungu — formvandi og stöðuvandi á norrænum miðöldum.
Í erindi sínu varpar Kristján fram spurningum á borð við: Hvernig varð íslensk tunga til? Hvernig var sambúð íslensku og latínu á miðöldum? Að hvaða leyti voru aðstæður líkar því sem nú er gagnvart ensku? Hvaða ógnir háðu vexti málsins og hvað var til styrktar? Hvaða hugsjónir (ef einhverjar) höfðu menn í þessum efnum á miðöldum?
Þunginn að aukast
Töluvert hefur verið rætt um stöðu íslenskunnar á opinberum vettvangi á undanförnum misserum. Ýmsir hafa lýst áhyggjum af stöðunni og þróun mála, í heimi sem breyst hefur hratt á undanförnum árum og áratugum, og mun að öllum líkindum halda áfram að breytast hratt. Kristján Árnason segir að auðvitað hafi menn lengi talað um vanda tungunnar, og jafnvel spáð henni dauða, ,,allnokkrum sinnum.“ Kristján segir að þunginn í umræðunni sé sívaxandi, og þá einkum vegna áhrifa frá enskunni, sem hann segir yfirþyrmandi. ,,En ég býst við því að þetta sé svona almennt, að þunginn sé aukast og svo er það náttúrlega oft þannig að það eru ákveðin vandamál sem blasa við þá sjá menn að það vantar pening í það, og þá þarf að gera eitthvað í þeim málum, en almennt séð held ég að þetta sé bara talsvert áhyggjuefni, að amerískan eða enskan sækir mjög mikið á almennt séð.“
Tungumál sem deyr úr iðrakvefi
Kristján segist alls ekki vilja ganga svo langt að spá fyrir um dauða íslenskunnar. ,,Ég ætla ekki að spá dauðanum, Eggert Ólafsson gerði það á skemmtilegan hátt einu sinni, hann sagði að íslenskan myndi deyja að af iðrakvefi, iðravandræðum, vegna þess að Íslendingar töluðu svo vont mál, hún var orðin svo vond íslenskan að hún bara lagðist út af og dó. En án gamans, þá held ég að það sé varla tímabært að fara að spá dauðanum. Auðvitað verður alltaf eitthvert tungumál talað hérna á landi, það er spurning hvert form þess verður, og jafnvel þó að við misstum sambandið við fornmálið. Það er náttúrlega spurning hvað menn eiga við þegar þeir segja að tungan deyi, einn skilningurinn væri sá að við hættum að geta lesið Íslendingasögur til dæmis eða Halldór Laxness, ef við getum ekki lesið það með góðu móti, þá erum við kannski búin að tapa einhverju, þá og þá er eitthvað dautt.“
,,Nú vilja allir verða einhvers konar Ameríkanar“
Kristján hefur í rannsóknum sínum meðal annars velt því fyrir sér hvað felist í því að tungumál verði til, eða tungumál deyji. Hann hefur kannað sambúð latínu og íslensku – eða norrænu – á miðöldum, og séð líkindi við sambúð ensku og íslensku í okkar samtíma. ,,Staða norrænunnar gagnvart latínunni var að sumu leyti lík stöðu þýsku, ensku og annarra Evrópumála gagnvart latínunni. Og á þeim tíma lágu allir vegir til Rómar, og allir vildu vera einhvers konar Rómverjar, “ segir Kristján, ,,nú vilja allir verða einhvers konar Ameríkanar.“
Frjósöm sambúð tungumála
,,Ein stór spurning er hvernig varð íslenskan að þessu vel nothæfa bókmenntamáli, sumir segja að það hafi gerst þegar Íslendingar tóku upp á því að þýða kristnar bókmenntir til dæmis,“ segir Kristján, ,,og það hafi verið úrslitaatriði, og þá er það náttúrlega dæmi um mjög þroskandi sambúð.“ Hann bendir á að strax á miðöldum hafi menn verið farnir að hugsa um stöðu íslenskunnar. Það hafi menn á borð við Snorra Sturluson og Ólafur hvítaskáld gert. ,,Snorra-Edda er að mörgu leyti málpólitískt rit, hún er að kenna Íslendingum hvernig eigi að yrkja á íslensku, og það sama má segja um ritgerð sem heitir Þriðja málfræðiritgerðin og er eftir Ólaf Þórðarson hvítaskáld,“ segir Kristján og bætir við að það sem sé merkilegt við miðaldirnar hversu roggnir þeir voru með sig þessir karlar, að þeir töldu íslenskuna alveg jafn gott tungumál og latínan, ,,hún væri ekkert síðri.“
Aðsteðjandi ógnir, hvað er til ráða?
En hvernig sér Kristján framtíðina fyrir sér, hvað þarf að gera til þess að íslenskan haldi velli og láti ekki undan áhrifum enskunnar? ,,Ég hef mestar áhyggjur held ég af menntakerfinu, og íslenskukennaramenntun jafnvel, það er talsvert umhugsunarefni hvernig þar er í pottinn búið.“ Þarna segist Kristján ekki síst hafa í huga Háskóla Íslands, þar þurfi menn að huga sinn gang í þessum efnum. ,,Ég er ekki að segja að þetta sé stærsta hættan en það er allavega mjög mikilvægt að mennta stofnanir landsins, og að Háskólinn hugi að þessu, stöðu tungunnar, ég vil leggja áherslu á þetta.“
Rætt var við Kristján Árnason í Lestinni.