Íslensk tónlist er að ná sér aftur á strik eftir um áratugs samdrátt. Þetta segir Eiður Arnarsson, framkvæmdastjóri Félags hljómplötuframleiðenda, en hann var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1 í morgun.
Eiður segir að á heimsvísu hafi ákveðið samdráttarskeið tónlistarmanna hafist upp úr síðustu aldamótum. Þá hafi fólk farið að geta nálgast tónlist ókeypis, en ólöglega. Hins vegar hafi íslensk tónlist á þeim tíma selst vel og náð hámarki í kringum 2005.
Það hafi svo verið í kringum 2010 sem samdráttarskeið hafi hafist hér á landi. Nú sé hins vegar að birta til að nýju, útgáfa á vínyl og geisladiskum gangi bærilega og margir íslenskir tónlistarmenn hafi ágætis tekjur í gegnum spilun á tónveitunni Spotify.
Eiður segir að með tilkomu tónveitna á borð við Spotify hlusti fólk orðið miklu meira á tónlist en áður. Nú sé öll tónlist í boði fyrir neytendur hvar sem er og hvenær sem er.
Hægt er að hlust á viðtalið við Eið í spilaranum hér að ofan.