John Fisher, yfirmaður Genfarskrifstofu Human Rights Watch samtakanna, vonar að Íslendingar geti fylgt eftir yfirlýsingu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, um Sádi-Arabíu og ástandið á Filippseyjum, með ályktunum sem sé enn sterkara útspil. Mannréttindi eigi undir högg að sækja í heiminum og útganga Bandaríkjanna úr Mannréttindaráðinu hafi alvarlegar afleiðingar.

Íslendingar létu til sín taka í mannréttindaráðinu

Ísland tók sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í byrjun árs eftir að Bandaríkjamenn sögðu sig úr því í júní í fyrra og hafa síðan þá látið til sín taka. Evrópuríki í mannréttindaráðinu, með Ísland í fararbroddi, kröfðust þess að yfirvöld í Sádi-Arabíu slepptu báráttufólki fyrir mannréttindum úr haldi og sýndu samstarfsvilja við alþjóðlega rannsókn á morði á blaðamanninum Jamal Khashoggi. Þetta var í mars og það var í fyrsta sinn sem Sádi-Arabía var beitt slíkum þrýstingi í ráðinu. Íslendingar hafa líka gagnrýnt stjórnvöld á Filippseyjum vegna ástands mannréttindamála þar og voru stjórnvöld á Filippseyjum ósátt við það. 

Samtökin Human Rights Watch rannsaka og segja frá mannréttindabrotum í yfir 100 löndum. Þau eru óháð en leggja upp úr því að vera í samskiptum við sendinefndir og stjórnvöld ríkja sem sitja í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. John Fisher er staddur hér til að ræða við íslensk stjórnvöld um störf Íslendinga í ráðinu. 

Óttast að fleiri fari að dæmi Bandaríkjanna

Hann segir að mannréttindi eigi undir högg að sækja í heiminum. „Fyrir sextíu til sjötíu árum samþykktu ríki heims alþjóðlega mannréttindayfirlýsingu og í dag er hún í hættu. Við höfum miklar áhyttjur af því að Bandaríkin hafa kerfisbundið dregið sig út úr alþjóðlegu samstarfi.“  
 
Aldrei áður hafi það gerst í sögu mannréttindaráðsins að aðildarríki hætti áður en tímabili þess lýkur.
Samtökin Human Rights Watch hafi haft miklar áhyggjur af því að fleiri ríki fari að dæmi Bandaríkjanna og að brottför þeirra yrði til þess að grafa undan baráttu Sameinuðu þjóðanna fyrir mannréttindum.

Verulega sótt að mannréttindum í heiminum

„Við vorum mjög ánægð þegar Islendingar tóku sæti Bandaríkjamanna og voru samþykkt af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Íslendingar hafa sýnt hvað lítil ríki með háleit markmið í mannréttindamálum geta afrekað.“ 

Eftir að Bandaríkin drógu sig í hlé hafi Kínverjar notað tækifærið og aukið áhrif sín á alþjóðavísu á sama tíma og alvarleg mannréttindbrot eiga sér stað í Kína. Sádi-Arabía taldi að þeir kæmust upp með að myrða blaðamann í sendiráði sínu í Istanbul þegar þeir myrtu Jamal Kashoggi, einng fangelsa þeir og pynta fólk og vinna gegn réttindum kvenna. Á Filippseyjum er fólk myrt í nafni baráttu gegn eiturlyfjum og þar eru andstæðingar forsetans í stjórnmálum líka myrtir. Tuttugu og sjö þúsund manns hafi verið myrt án dóms og laga á Filippseyjum sem er ótrúlegur fjöldi í ríki sem á sæti í Mannréttindaráðinu. Einnig er ástandið í Egyptalandi að versna.

„Og þess vegna höfum við það á tilfinningunni að nú sé sótt að mannréttindum í heiminum“

Vona að Íslendingar gangi lengra í mannréttindaráðinu

Fisher vonar að Íslendingar geti gengið lengra en þeir hafa gert hingað til með því að stuðla að því að mannréttindaráðið gefi út ályktun bæði vegna Filippseyja og Sádi-Arabíu.  
Sameiginleg yfirlýsing hefur ekki sama vægi og ályktun, segir Fisher. Sameiginlegar yfirlýsingar nýtast vel til að lýsa yfir áhyggjum og vekja athygli á málum en yfirlýsing hefur meira vægi.  

Íslendingar tóku sæti Bandaríkjanna þegar liðið var á tímabilið og því er tíminn naumur. Ísland situr í ráðinu til ársloka og einungis tveir fundir eru eftir.  

„Það skiptir  verulegu máli að Íslendingar fylgi eftir sameiginlegu yfirlýsingunum um Filippseyjar og Sádi-Arabíu. Með því geta þeir sýnt öðrum ríkjum hvað hægt er að gera jafnvel þegar  ástand í stjórnmálum er erfitt. Það getur líka orðið til þess að önnur ríki leggi frumkvæði þeirra lið.“

Fisher segist vera bjartsýnismaður að eðlisfari.  En nú sé mörgum brugðið vegna aðfarar stjórþjóða að mannréttindum. Þetta séu erfiðir tímar en nokkur ríki hafi fundið til ábyrgðar og brugðist við til varnar mannréttindum og þeim innviðum sem halda utan um þau í heiminum. Ísland er dæmi um það og þess vegna vonar Fisher að Íslendingar haldi áfram á meðan þeir sitja í ráðinu og verði öðrum ríki fyrirmynd um samstöðu og hvernig hægt að skipta máli með því að standa saman.