Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gaf sig óvænt á tal við blaðamenn í Hörpu áður en hann hitti Guðlaug Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. „[Ísland] er mikilvægur vinur Bandaríkjanna,“ sagði Pompeo en ekki hafði verið gert ráð fyrir að ráðherrann myndi ávarpa blaðamenn fyrr en á blaðamannafundi eftir fundinn með Guðlaugi Þór.

Pompeo sagði við blaðamenn að Ísland og Bandaríkin hefðu bæði efnahagsleg og stjórnmálaleg tengsl og væru í varnarsamstarfi sem væri mjög mikilvægt. „Málefni Norðurslóða eru líka jafn mikilvæg og nærvera bæði Rússa og Kínverja þar verður eitthvað sem við munum ræða um.“

Talsverð öryggisgæsla er í kringum Pompeo en 28 sérsveitarmenn frá embætti ríkislögreglustjóra eru að störfum. Þeir eru allir vopnaðir, samkvæmt svari frá ríkislögreglustjóra. Þá fengu þeir bandarísku lögreglumenn sem fylgja Pompoe hingað einnig undanþágu til að bera vopn.

Eftir fundinn með Guðlaugi Þór í Hörpu mun Pompeo hitta Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í Ráðherrabústaðnum.