Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, var ánægður með heimsókn sína í Hellisheiðavirkjun í dag. Hann vonast til þess að þróa áfram gott samband Íslands og Svíþjóðar í heimsókn sinni á Íslandi.
Löfven kom til Íslands í dag, tilefni heimsóknarinnar er árlegur sumarfundur forsætisráðherra Norðurlandanna en hann nýtti tækifærið til að skoða sig um í dag og hitta Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og eiga með henni fund. Katrín tók á móti Löfven og hans fylgdarliði við Hellisheiðarvirkjun rétt fyrir hádegi. Löfven hafði óskað eftir því að heimsækja virkjunina og virtist ánægður með heimsóknina.
„Þetta er mjög áhugavert, Ísland er forystuþjóð í orkumálum og Íslendingar leggja sig fram í málaflokknum. Mér fannst sérlega áhugavert hvernig koltvísýringur er bundinn,“ sagði Löfven í samtali við fréttastofu í dag. Þá kvaðst hann vonast til þess að með heimsókninni hingað að Ísland og Svíþjóð þrói áfram gott samband ríkjanna og að fundur ráðherranna á morgun verði einnig til styrkja gott samband Norðurlandanna.
Katrín tekur á móti Antti Rinne, forsætisráðherra Finnlands síðar í dag og endar svo daginn á Þingvöllum þar sem hún á fund með Angelu Merkel kanslara Þýskalands sem verður sérstakur gestur á fundinum á morgun.