Flugmálayfirvöld í Íran ætla ekki að afhenda sérfræðingum Boeing flugvélasmiðjanna flugrita úkraínsku þotunnar sem fórst í nótt skömmu eftir flugtak frá Teheran. Íranska fréttastofan Mehr hefur þetta eftir yfirmanni írönsku flugmálastofnunarinnar.

167 farþegar og níu manna áhöfn þotunnar fórust. Förinni var heitið til Kænugarðs í Úkraínu. Sendiráð landsins í Teheran lýsti því yfir í nótt að vélarbilun væri orsök slyssins. Úkraínski sendiherrann dró í land þegar leið á morguninn og sagði að of snemmt væri að segja nokkuð til um ástæður þess að þotan fórst. Allar fyrrverandi yfirlýsingar væru óopinberar.

Þotan sem fórst var frá ríkisflugfélaginu í Úkraínu. Hún var af gerðinni Boeing 737-800, smíðuð árið 2016. Hún kom reglubundinni skoðun á mánudag. Flugfélagið hefur ákveðið að fresta öllum flugferðum til Írans um óákveðinn tíma meðan rannsakað er hvað olli flugslysinu.