Að skoða náttúruna hefur áhrif á náttúruna. Að „gramma“ náttúruna hefur hins vegar enn meiri áhrif og þótt hjólför Rússans í Mývatnssveit séu sérlega sýnileg geta velmeinandi náttúruunnendur einnig valdið skaða með því einu að birta mynd á samfélagsmiðlum. Sævar Helgi Bragason segir að myndir á Instagram sem fara á flug geti eyðilagt viðkvæmar náttúruperlur.

Alexander Tikhomirov ók Land Cruiser leigujeppa, fullum af rússneskum og úkraínskum fyrirsætum, út af veginum vestan við Námafjall og Bjarnarflag, skammt frá jarðböðunum í Mývatnssveit. Bíllinn skildi eftir sig djúp sár í viðkvæmum, leirkenndum jarðveginum á jarðhitasvæðinu þar sem hann festist að lokum. Á myndunum sem Tikhomirov birti á Instagram sést skakkur bíllinn, sokkinn ofan í rauðan aurinn. Sjálfur situr Tikhomirov á hækjum sér, í stellingu sem oft er nefnt slavneskt „squat”, með hönd undir kinn.

Tikhomirov uppskar stóra sekt fyrir vikið en eftir situr landslag í sárum. Spjöllin hafa vakið gríðarlega reiði. Hvers virði er skitin Instagram-mynd ef náttúran ber skaða af? Þegar við skoðum Instagram-myndir í stærra samhengi, sjáum við að umhverfisáhrif þeirra eru mun víðtækari en margur myndi halda.

„Þetta hefur nú þegar haft mikil áhrif á ferðamennsku,” segir þáttagerðarmaðurinn Sævar Helgi Bragason sem er sérfræðingur í náttúruvernd en starfar einnig innan ferðamannaiðnaðarins. Hann bendir á að þegar þar birtast fallegar myndir úr náttúru Íslands – eða hvaðan sem er –hvetji þær aðra til þess að heimsækja sömu staði, ná sömu mynd. Þetta veldur auknum ágangi, sem viðkvæm náttúra þolir illa.

„Það eru dæmi um það í Bandaríkjunum, hjá Miklugljúfrum og í Yellowstone garðinum, þar sem fjöldi ferðamanna hefur aukist talsvert, og þeir vilja rekja það einmitt til Instagram,” segir Sævar. Hann nefnir svipaðan stað á Nýja-Sjálandi þar sem yfirleitt liggur löng röð að útsýnisstað yfir fallegan dal. Allir vilji taka nákvæmlega sömu myndina.

Kolin knýja samfélagsmiðla

„Það að skoða náttúruna hefur áhrif á náttúruna. Tvær milljónir ferðamanna hafa áhrif á landslagið í kringum okkur,” segir Sævar. „En svo þegar fólk sendir myndirnar sínar inn á netið þá eru þær geymdar í gagnaverum sem mörg hver, ekki öll, eru knúin áfram með rafmagni sem framleitt er með kolum.” Sævar segir að streymisþjónustan Spotify skilji eftir sig stærra kolefnisspor en allir geisladiskar sem framleiddir hafa verið. Að geyma milljónir mynda kosti að sama skapi gríðarlega mikla orku.

Þegar notandi birtir mynd á Instagram og flestum öðrum samfélagsmiðlum býðst viðkomandi að merkja hvar hún er tekin með svokölluðu „geotaggi” eða staðsetningarmerki sem er gríðarlega nákvæmt. Þannig eiga aðrir auðvelt með að finna sömu staði og ferðast til þeirra. Þannig geta ferðamenn sem þekkja í raun ekkert til svæðisins fundið leynigjár við Mývatn eða náttúrulaugar á Reykjanesi sem eru viðkvæmar fyrir umferð.

„Í sumum tilvikum, ef svæðið er mjög viðkvæmt, reyndu að standast freistinguna að taka mynd og birta á samfélagsmiðlum,” ráðleggur Sævar. „Hún getur farið á flug og leitt til þess að staðurinn eyðileggst.”