Fjórar vampýrur búa saman í New York og í gegnum linsur heimildarmyndagerðarmanna er fylgst með þeim í samskiptum við mannverurnar í kringum þær. Áslaug Torfadóttir fjallar um vampýruþættina What We Do in the Shadows í Lestinni.
Áslaug Torfadóttir skrifar:
Nýsjálenska meistarastykkið What We Do in the Shadows kom út árið 2014 en vakti litla athygli, enda voru höfundar myndarinnar Jemaine Clement og Taika Waititi ekki enn orðnir þekktir utan heimalands síns. Það hefur þó sannarlega breyst og ættu flestir að kannast við Clement sem annan helming grín-dúettsins Flight of the Conchords eða úr sjónvarpsþáttunum Legion og Waititi hefur verið að gera það gott sem leikstjóri kvikmynda á borð við Hunt for the Wilderpeople og ekki síst Thor: Ragnarök. En fyrir fimm árum síðan var einstakur húmor þeirra ekkert minna fyndinn og gervi-heimildamyndin What We Do in the Shadows um daglegt líf vampýra í Wellington varð fljótlega að költi hjá kvikmyndaunnendum og netverjum, enda brandararnir einstaklega gif-vænir. Myndin hefur nú þegar gefið aðdáendum hliðarseríuna Wellington Paranormal, áformað er að gera framhaldsmynd um varúlfagengi og nú hefur sjónvarpstöðin FX gefið þeim félögum Clement og Waititi tækifæri til þess að stækka heim vampýranna enn meira í samnefndri sjónvarpsþáttaröð.
Þættirnir What We Do in the Shadows byggjast á sömu grunnhugmyndin og myndin. Við fylgjumst með fjórum vampýrum sem búa saman, í þetta skiptið í Bandaríkjunum, nánar tiltekið á Staten Island í New York. Óséðir heimildarmyndagerðarmenn fylgja vampýrunum eftir í sínu daglega næturlífi og mynda samskipti þeirra við mannverurnar í kringum þær. Waititi og Clement fóru með tvö af aðalhlutverkunum í myndinni en láta sér nægja að vera á bak við myndavélina í þetta skiptið, en Waititi leikstýrir nokkrum þáttum og Clement bæði skrifar og leikstýrir. Í stað þeirra er það einvala lið breskra grínista sem túlkar meðleigjendurna á ógleymanlegan hátt. Þekktastur þeirra er án efa Matt Berry sem áhugafólk um gott grín ætti að þekkja úr þáttum eins og Toast of London og The IT Crowd.
Berry leikur Lazlo, kynóðan breskan hefðarmann sem elskar vampýrulífið en er of latur og sjálfhverfur til þess að það stafi raunveruleg hætta af honum. Berry hefur mjög sérstakan framsagnarstíl og getur gert jafnvel ómerkilegustu línur óbærilega fyndnar og hentar látlaus stíll þáttanna honum einstaklega vel. Uppistandarinn og leikkonan Natasia Demetriou leikur eiginkonu Laszlos, Nödju. Demetriou hefur ekki sést mikið í leiknum þáttum áður en stelur senunni nánast með túlkun sinni á Nödju sem er löngu orðin þreytt á vitleysunni í meðleigjendum sínum en stenst ekki mátið að leita að elskhuga sínum úr fyrra lífi, honum Gregor, sem vonandi hefur ekki verið afhausaður enn í þessu lífi. Hvert einasta kaldhæðna tilsvar Nödju er eins og gull úr munni Demetriou sem bregður varla svip allan tímann. Þriðja vampýran er svo Nandor, eða Nandor the Relentless eins og hann er betur þekktur enda gefst hann aldrei upp. Nandor er sá sem hefur mestan áhuga á umheiminum og umhverfi vampýranna og hefur nánast barnslegt sakleysi sem stangast á við Lazlo og Nödju sem halda aðeins fastar í gamlar hefðir.
Nandor er leikinn af Kayvan Novak sem þekkastur er fyrir sketskaþættina Fonejacker og Facejacker. Hann er þó nánast óþekkjanlegur sem Nandor og verður fljótt hjarta þáttanna enda sú persóna sem kannski breytist mest í gegnum þáttaröðina. Tenging Nandors við mannheima er þjónninn eða þrællinn hans, Guillermo, sem hefur þjónað honum í áratug gegn óljósu loforði um að vera gerður að vampýru á einhverjum tímapunkti. Guillermo er leikinn af Harvey Guillén sem kemst líka nálægt því að stela senunni sem hinn auðmjúki nörd sem er samt alveg kominn að þolmörkum. Enn annar senuþjófur er svo Mark Proksch sem leikur fjórða meðleigjandann, Colin Robinson. Colin Robinson er orkuvampýra sem þýðir það að hann nærist á því að pirra fólk eða láta því leiðast svo mikið að það fellur nánast í dá.
Proksch tekst að gæða Colin Robinson engum sjarma, sem verður að teljast afrek. Leiðinlegri maður hefur varla sést í sjónvarpi en það er yndislegt að fylgjast með honum nærast á mannfólki með endalausum sögum um ekki neitt og ekki síst tilraunum hans til þess að verða einn af vampýrugenginu. Í raun er leikurinn einn af stærstu þáttunum í því sem gerir What We Do in the Shadows svona skemmtilega áhorfs. Hér er hvert hlutverk vel skipað og gestaleikararnir eru hver öðrum betri og frægari sem nær hámarki í sjöunda þætti þar sem leikarar sem hafa leikið helstu vampýrur poppkúltúrs síðustu ára koma saman til þess að fella dóm yfir meðleigjendunum eftir nýjasta klúðrið þeirra.
En góður leikur einn og sér er ekki nóg til þess að gera góðan sjónvarpsþátt og sem betur fer hafa What We Do in the Shadows fleira til að bera. Eins og áður sagði er tónn þáttanna svipaður og í kvikmyndinni en þó er margt bæði sér-amerískt, eins og fjölmenningarlegur hópur varúlfanna, og þættirnir stækka líka vampýruheiminn. Á meðan vampýrurnar í myndinni lifðu meira smábæjarlífi, þá hafa vampýrurnar í þáttunum mun meira að gera í stórborginni og sækja bæði næturklúbba og halda orgíur. Bandaríkin virðast líka skipta meira máli fyrir vampýruþingið enda fá meðleigjendurnir heimsókn frá hátt settum barón sem kemur til að athuga hvort þau séu ekki örugglega komin langt á veg með að sölsa undir sig heimsálfuna. Honum finnst því miður ekki mikið til þess koma að þau ráði næstum því yfir einni og hálfri götu.
Þrátt fyrir ákveðna vísa að línulegum söguþræði eins og þessum þá eru What We Do in the Shadows af gamla skólanum og hver þáttur er nánast sjálfstæður. Þeir falla heldur ekki undir nýjasta trendið í gamanþáttum sem er að breytast annaðhvort í drama eða virka sem allegóría fyrir pólitík, fordóma eða önnur samfélagsmein. Ekki það að það sé eitthvað að því, og það er mikið til af frábærum gamanþáttum sem falla undir þessa skilgreiningu. En stundum vill maður bara leyfa sér að fljóta með í eintómum skemmtilegum kjánaskap og gleði og fylgjast með aldagömlum vampýrum velja „krípipappír” fyrir larpara-partýið sitt.