Stjórnvöld í Íran segjast geta varist innrás Bandaríkjanna ef af henni verður. Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í Miðausturlandafræði segist svartsýnn, staðan sé óútreiknanleg. Afleiðingar innrásar í Íran yrðu mun alvarlegri en af innrás Bandaríkjahers í Írak 2003.

Síðustu daga hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum og Íran sent köld skilaboð sín á milli. Síðast í gær sakaði Bandaríkjaforseti Írana um að ögra Bandaríkjunum og varaði við afleiðingunum. Utanríkisráðherra Írans svaraði því til að Trump gæti ekki tortímt Íran, ekki frekar en Alexander mikli eða Genghis Khan. 

Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í nútímasögu Mið-Austurlanda við William College í Bandaríkjunum hélt erindi um Bandaríkin og Íran í Friðarhúsinu. Hann segir stöðuna óútreiknanlega. „Ein ástæða fyrir því að ég er svartsýnn er vegna þess að staðan er þannig að hún er svo óútreiknanleg. Það sem ég hef mestar áhyggjur af er að fólk misskilji hvort annað. Og eitthvað gerist, eitthvað slys verður og það verður til þess að stríð brýst á.“

Sérstakt bandalag Ísrael og Sádi-Arabíu

Bandaríkjamenn hafa sent heila flotadeild, með flugmóðurskip í broddi fylkingar, inn á Persaflóa. En Bandaríkjamenn eru ekki þeir einu sem er í nöp við Írana. „Það sem virðist vera hjá Trump-stjórninni er að svona strategían hjá þeim er að fá Ísraela og Sádi-Arabíu sem eru mjög ákafir í að heyja stríð gegn Írönum og þeir eru núna að mynda þetta mjög sérstaka bandalag.“ Sameiginlegur óvinur sé ekki það eina sem liggi að baki þessu ólíklega bandalagi. Bæði ríkin óttist uppgang Tyrkja og Rússa á svæðinu og einnig sjái Ísraelar fyrir sér leið til þess að gera sig gildandi í Asíu. Sem dæmi þá styttir það flugleiðina verulega að fá að fljúga yfir Sádi-Arabíu en það var öllum farþegaþotum á leið til Ísrael bannað þar til fyrir rúmu ári.

„Ísraelar eru að horfa meira og meira til Asíu sem áfangastaðar í framtíðinni af því að þar eru ríki sem eru að vaxa. Indland og Kína sérstaklega. Og ríkin í Asíu eru ekki að tala um mannréttindamál eins og Evrópubúar eru að gera eða önnur ríki í hinum vestræna heimi.“

Hverjar yrðu afleiðingarnar?

„Ég veit ekki hversu sterk lýsingarorð eru til til þess að lýsa hverjar afleiðingarnar yrðu. Þetta yrði miklu alvarlegara en Írak eða Afghanistan. Íran er miklu stærra og með fleiri bandamenn. Þannig að þetta stríð yrði alveg ógnvænlegt ef úr yrði,“ segir Magnús.