Undanfarna viku hefur listamaðurinn Högni Egilsson verið á flandri um Vestfirði þar sem hann hefur haldið þrenna styrktartónleika. Í gær hélt hann tónleika í Tankinum á Flateyri til styrktar Katrínu Björk Guðjónsdóttur. Þar flutti hann meðal annars lagið „Heyr mína bæn“ en Katrín Björk söng það í söngkeppninni Samfés árið 2009, áður en hún missti röddina.

 

Katrín Björk er ung kona sem býr á Flateyri og er með arfgenga heilablæðingu. Hún var tuttugu og eins árs þegar hún fékk fyrstu heilablæðinguna. Alls hefur Katrín fengið tvær heilablæðingar og blóðtappa. Eftir síðari blæðinguna lá hún í öndunarvél og gat einungis opnað hægra augað. Í sex vikur vissu aðstandendur hennar ekki hvort blæðingin hefði haft áhrif á huga hennar. Katrín segir hugsun sína hafa verið heila allan tímann. Eftir sex vikur fékk hún síðan talmeinafræðing í heimsókn, sem breytti öllu fyrir hana. Með sérstöku spjaldi gat hún tjáð sig á ný. 

Högni segir hugmyndina um styrktartónleikaröð á Vestfjörðum hafa komið frá tveimur vinkonum, Charlottu og Nastasiu. Þau hafi látið slag standa og á þriðjudag hófst tónleikaröðin með tónleikum í Bíldudal. Þar rann ágóði tónleikanna til styrktar kaupa á leikföngum fyrir þroskahömluð börn í leikskóla. Í fyrradag voru tónleikar í Tankinum á Flateyri til styrktar Katrínu Björk. Í gærkvöldi lauk svo tónleikaröðinni í Bolungarvík en þar var verið að safna fyrir tækjabúnaði fyrir elliheimilið þar. 

Katrín Björk var viðstödd tónleikana í Tankinum í fyrradag. Högni segir það hafa gefið sér mikið að hún væri á staðnum. Hann sé hrærður og innblásinn af hug hennar og krafi. „Í mínu lífi þá eru það svona augnablik sem skara fram úr og verða minnistæð.“