Sjálfstætt fólk, höfuðverk Halldórs Laxness, verður gert að kvikmynd og sjónvarpsþáttum, þeim umfangsmestu í íslenskri sjónvarpssögu fram til þessa.

Reykjavík Studios og RÚV hafa undirritað samning um að framleiða saman sjónvarpsþáttaröð byggða á bókinni. Baltasar Kormákur leikstýrir og Ingvar E. Sigurðsson fer með hlutverk Bjarts í Sumarhúsum.

Sjálfstætt fólk kom fyrst út í fjórum bókum á árunum 1933 til 1935 og er fyrir löngu orðin eitt af ástsælustu skáldverkum sem komið hafa út á Íslandi. Baltasar Kormákur segir bókina hafa haft sterk áhrif á hann þegar hann las hana í framhaldsskóla. „Hún varð meðal annars ástæða fyrir því að ég fór út í kvikmyndagerð, því ég taldi að það væri ekki hægt að gera þessa bók í leikhúsi á sama hátt.“

Of stór saga fyrir bíómyndaformið 

Baltasar tryggði sér kvikmyndaréttinn fyrir fimm árum og nú á dögunum undirritaði framleiðslufyrirtæki hans, Reykjavík Studios, og RÚV samning um að framleiða saman verk byggt á bókinni.

„Ég hef verið að bögglast með hvernig sé best að gera þetta,“ segir Baltasar. „Ég ætlaði að gera bíómynd en fannst hún ekki passa í bíómyndaformið, þetta er svo stór saga. Svo kom þessi hugmynd að gera bíómynd úr fyrstu bókinni, en gera sjónvarpsþætti eftir hinum bókunum. Fyrsta bókin verður því bíómynd og svo gerum við sex til átta þætti í viðbót. Það er ekki búið að ákveða það endanlega. Þetta er stóra bókin okkar og stóra íslenska verkefnið sem mig hefur dreymt að gera.“

Ingvar E. Sigurðsson leikur aðalhlutverkið, sjálfan Bjart í Sumarhúsum.  „Ég tel hann vera á réttum aldri núna, hann er um fimmtugt. Karakterinn fer frá tæplega fertugu upp í sjötugt. Ingvar spannar þetta vel, er frábær leikari og hefur leikið þetta að hluta á sviði.“

Baltasar áætlar að kostnaður við verkefnið verði um einn og hálfur milljarður króna, um hálfum milljarði króna meira en Ófærð kostaði. Verið sé að finna hentuga tökustaði en hann vonar að verkefnið verði vel á veg komið innan tveggja ára.Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segir RÚV og Reykjavík Studios framleiða þættina saman frá upphafi til enda.

„Við erum afskaplega spennt fyrir þessu. Við höfum verið að auka áherslu á leikið efni í okkar dagskrá og það er augljóst að íslenskir áhorfendur eru þakklátir fyrir það, Ófærð sló í gegn og Fangar sömuleiðis. Umfangið er að ráðast en þetta verður stórt og mikið, þetta er tiltekið tímabil sem er verið að mynda og þarf að vanda vel til verka á öllum póstum.“

Baltasar segir það skipta sköpum að RÚV komi myndarlegar að þessu verkefni en öðrum sem hann hefur unnið að.

„Íslendingar verða að eiga svona verkefni, eins og þessa bók, það er ekki hægt að gera þetta til að þjóna útlendingum. Þetta þarf að gera með myndarlegri aðkomu innlendra aðila og þar af leiðandi ráðum við mestu í framsetningunni. Ég tel líka að þessi sjónvarpsleið gefi efninu möguleika á að fara miklu víðar en ef þetta er „art-house“ bíómynd, eins og íslenskar bíómyndir yfirleitt eru. En Ófærð,  þeir þættir voru sýndir á besta tíma, sex milljónir horfðu á þá í Frakklandi, sem sýndi að þetta getur náð til miklu stærri hóps.“

Rökrétt framhald í kjölfar Ófærðar

Magnús Geir segir aðalatriðið vera að bókin sé stórkostlegt listaverk. „Þetta er saga sem skiptir okkur sem þjóð miklu máli en hins vegar er þetta líka sígild saga sem hefur náð í gegn út um allan heim. Það er á það sem við trúum og við trúum að þessi saga geti orðið frábær sjónvarpssería og kvikmynd. Þess vegna gerum við þetta.“

Hann segir þetta líka rökrétt framhald í kjölfar velgengni Ófærðar, þar sem RÚV vilji bjóða upp á blandað leikið sjónvarpsefni.

„Í ljósi þess sem við höfum boðið upp á og erum komin með á dagskrá  erum við orðin nógu örugg til að segja: Það er kominn tími til að ráðast í þetta þrekvirki. Við erum sannfærð um það að Baltasar og þeir frábæru listamenn sem með honum starfa geti leyst töfrana í þessari sögu úr læðingi.“

Magnús Geir segir mikla eftirspurn eftir leiknu íslensku sjónvarpsefni nú um mundir og hann finni greinilega fyrir því þegar hann hitti forsvarsmenn erlendra fjölmiðla.

„Þessi staða hefur aldrei verið uppi áður. Það er verið að kalla eftir því og menn segja: „Komið með meira gott efni. Við erum tilbúin að kaupa það og sýna það.“  

Baltasar segir að þetta sé gullið tækifæri sem megi ekki fara forgörðum. „Ef menn hafa áhuga á að kynna íslenska menningu og hafa rödd er þetta vettvangurinn.“