Skot, fyrirtæki Ingu Lindar Karlsdóttur hefur slitið barnskónum og er orðið fjögurra ára. Skot hefur framleitt fjöldann allan af vinsælu sjónvarpsefni á síðustu árum, til dæmis Með Loga, Kokkaflakk og Burðadýr. Nú ógnar tillaga um breytingar á lögum um endurgreiðslu til kvikmyndagerðar fyrirtækinu.

Landslagið fyrir framleiðendur í sjónvarpi eins og fyrirtækið Skot sem eru ekki í framleiðslu á leiknu efni eða heimildarmyndum er ekki nógu gott ef tillögur um breytingar á lögum um endurgreiðslu ná fram að ganga óbreyttar. Þetta segir Inga Lind sem er einn af eigendum Skots og hefur starfað við fjölmiðla og framleiðslu á sjónvarpsefni í rúm tuttugu ár.

Inga Lind hefur áhyggjur því að samkvæmt tillögunum sem liggja fyrir Alþingi á að taka 25% endurgreiðslu af þáttum sem flokkast sem skemmtiþættir, viðtalsþættir og raunveruleikaþættir þannig að eftir lagabreytingu verður einungis hægt að fá endurgreiðslu á leiknu efni, kvikmyndum og heimildarmyndum.

„Ef þetta gengur eftir þá getum við bara lokað Skoti og kvatt þennan bransa,“ segir Inga Lind ómyrk í máli „því við erum ekki í leiknu efni eða heimildarmyndum enn sem komið er.“

Skot hefur framleitt þætti eins og Með Loga, Kokkaflakk, ýmsa viðtalsþætti og fjölda annarra þátta fyrir sjónvarp og vef. Fyrirtækið hefur stækkað og sérþekking aukist innan fyrirtækisins með hverju verkefninu, sem Inga Lind óttast að glatist ef lögum um endurgreiðslu til kvikmyndagerðar verður breytt. 

„Þetta er heilmikil framleiðsla og það sem mun gerast ef þessi 25% endurgreiðsla af þessu tiltekna efni verður lögð af þá munu kaupendur ekki kaupa þetta efni því það verður of dýrt,“ sagði inga Lind i spjalli við Morgunkaffið og bætti við: „Þetta eru 25% af kostnaði við þættina sem þá þegar hefur fallið til í samfélaginu, þannig að þetta er ekki styrkur, heldur velta sem verður öll tekin út.“

Inga Lind myndi vilja að kerfið yrði óbreytt og finnst ekki eðlilegt að ríkið sé að stýra menningarneyslu þjóðarinnar með þessum hættu og ákveða hvað sé menning og hvað ekki. Inga Lind hefur einnig áhyggjur af að stjórnvöld hafa í hyggju að setja fjögur hundruð milljóna króna þak á endurgreiðslu til erlendrar kvikmyndaframleiðslu, sem Inga telur að geti verið stórskaðlegt fyrir bransann og dauðadómur fyrir marga. 

Inga Lind Karlsdóttir ræddi við Björgu Magnúsdóttur og Gísla Martein Baldurson í Morgunkaffinu og heyra má í spilara hér að ofan.