Fyrsta fjölbýlishúsið í fimmtán ár rís nú á Ísafirði. Á tíu dögum seldust fjórar af þrettán íbúðum hússins og bæjarstjórinn vonast til að eftirspurnin reynist öðrum hvatning til að ráðast í húsbygginar.
Fólk veigrar sér við að flytja vegna húsnæðisskorts
Húsnæðisskortur hefur plagað Ísafjörð eins og fleiri þorp og bæi víða um land. „Og við finnum það og heyrum þá á hverjum einasta degi af fólki sem að hefur áhuga á að búa hérna, flytja hingað eða færa sig um set en á í erfiðlieikum með að finna eignir,“ segir Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Þá er eftirspurn á leigumarkaði einnig meiri en framboðið. „Þetta hefur verið pínulítill svona þröskuldur fyrir þá stefnu okkar að laða til okkar fólk,“ segir Guðmundur.
Sveitarfélagið réðst í að byggja
Til að losa um fasteignamarkaðinn ákvað Ísafjarðarbær að byggja 13 íbúða fjölbýlishús, hið fyrsta af því tagi á Ísafirði í fimmtán ár. „Verð á fasteignum hefur verið langt undir byggingarkostnaði og þess vegna hefur fólk veigrað sér við að byggja, bæði fyrirtæki og einstaklingar. Svo auðvitað var þetta ákveðin áhætta hjá sveitarfélaginu sem við töldum samt að væri réttlætanleg þar sem það horfi allavega til betri vegar,“ segir Guðmundur.
Getur staðið undir kostnaði
Áætlaður byggingarkostnaður er 380 milljónir. Sveitarfélagið hugðist leigja íbúðirnar út og þáði stofnframlag Íbúðalánasjóðs til verksins. En til þess að koma í veg fyrir of mikla eigna- og skuldastöðu hjá sveitarfélaginu var ákveðið að selja eignirnar og skila stofnframlaginu. Þar sem fasteignaverð á Ísafirði hefur rokið upp stendur salan undir kostnaði.
Íbúðir seljast hálfu ári fyrir afhendingu
Stefnt er að því að afhenda íbúðirnar 1. desember en nú þegar hafa fimm af þrettán íbúðum verið seldar. „Miðað við viðbrögðin fyrstu tíu daga þá held ég að þetta hafi verið hárrétt ákvörðun sem var tekin og viðbrögðin sýna hvernig staðan á markaðnum hefur verið orðin,“ segir Guðmundur.
Skortur á litlum íbúðum
Íbúðirnar eru frá fimmtíu og tveimur upp í 139 fermetra og í húsinu er bílakjallari og lyfta. Kaupendur eru bæði eldra fólk sem vill minnka við sig og fólk að kaupa sína fyrstu íbúð. „Það hefur verið skortur á ákveðnum tegundum af fasteignum,“ segir Guðmundur. Í nýlegri skýrslu Íbúðalánasjóðs kom til að mynda fram að á Vestfjörðum eru íbúðir stærri og eldri en víðast hvar annars staðar á landinu, auk þess sem herbergi eru fleiri í hverri íbúð á Vestfjörðum en almennt á landsvísu. Þá er íbúðarhúsnæði eldra og hlutfall einbýlishúsa mun hærra en á höfuðborgarsvæðinu, 57 prósent húsnæðis á Vestfjörðum eru einbýlishús miðað við 15 prósent á höfuborgarsvæðinu.
Verði öðrum hvatning
Guðmundur vonar að framkvæmdirnar reynist öðrum hvatning. „Þetta sem við gerðum átti að sýna fram á að þetta væri hægt og það teljum við okkur hafa gert.“