Íbúafjöldi sveitarfélagsins Ölfuss tvöfaldast gangi áform um byggingu 500 íbúða hverfis eftir. Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir að áformin séu til tíu ára. 

Rætt var við Elliða á Morgunvaktinni á Rás eitt í morgun. 

„Við erum þarna að semja við eitt fyrirtæki um mjög stórt svæði og þetta gerum við vegna þess að við vitum að þarna fer öflugt fyrirtæki. Þetta er m.a. fyrirtæki sem byggði á Hafnartogi eða svoköllum Hörpureit. Þeir byggðu líka blokkirnar úti á Seltjarnarnesi og á Edenreitnum og fleira. Þeir hafa mikla burði og getu. Okkar aðkoma, sveitarfélagsins, er að finna með þeim þetta landssvæði sem þarna er. Síðan önnumst við að sjálfsögðu deiliskipulag og aðalskipulag í samstarfi við þá. Þeir sjá síðan um innviðauppbygginguna á þessu svæði, s.s. gatnagerð, lagnir og það sem við á. Þannig að áhættan fyrir sveitarfélagið er eins lítil og mögulegt er að akkúrat þessu verkefni. Þetta er mjög stórt verkefni. Þetta geta orðið allt að 500 íbúðir á þessum gíða stað. En þetta er til tíu ára,“ segir Elliði. 

Hann segir að jafnframt verði öðrum og minni aðilum aðganga að lóðum á sama tíma. „Og erum þess vegna að ljúka skipulagi og gatnagerð núna. Þetta verða 170-180 íbúðir til viðbótar við þetta sem verða í þessum hefðbunda fasa, þar sem við skipuleggjum, leggjum götur og auglýsum síðan lóðir. Eftirspurnin eftir lóðum er mjög mikil á þessu svæði,“ segir Elliði.