Í síðustu viku barst sú harmafregn að Kobe Bryant, einn besti körfuboltamaður allra tíma, hefði farist í hörmulegu þyrluslysi. Fráfall Kobes hefur lamað íþróttaheiminn og allir sem vettlingi geta valdið minnast hans. En Kobe var ekki dæmigerður íþróttamaður. Hann var líka skáld, og óskarsverðlaunahafi, sem var í stöðugri leit að fullkomnun. Sú leit mótaði hann, og rakst Kobe á ófáa veggi á leiðinni. 

„Einn allra besti körfubolta- og íþróttamaður seinni tíma“

Kobe Bryant fæddist árið 1978 og var því á fertugasta og öðru aldursári þegar hann lést. Hann ólst upp á Ítalíu þar sem faðir hans, Joe Bryant, spilaði sem atvinnumaður í körfubolta. Snemma varð ljóst að Kobe væri hæfileikamaður sömuleiðis, og svo fór að árið 1996 varð hann fyrsti bakvörðurinn sem til að verða valinn beint úr menntaskóla í nýliðavali NBA deildarinnar. Charlotte Hornets völdu Kobe, en skiptu honum sama kvöld yfir til Los Angels Lakers. Ákvörðun sem svíður líklega enn. Í Los Angeles spilaði Kobe næstu 20 árin, hvorki meira né minna. 

„Mér finnst það mjög fallegt, að þú sért alltaf í sama liði. Að þú farir aldrei neitt annað og standir með þínu liði á þessu stóra sviði í Los Angeles. Mér finnst það mjög falleg saga,“ segir Svali Björgvinsson, sálfræðingur og einn okkar helsti sérfræðingur um körfubolta. Svali fylgdist með Kobe allt frá dögum hans í Lower Merion High School. Hann hefur lýst hundruðum leikja með Kobe. Og hélt áfram að fylgjast með honum eftir að ferlinum lauk. Honum var sárlega brugðið þegar hann heyrði fréttirnar á sunnudaginn síðastliðinn, um að Kobe Bryant væri dáinn.

Átti margt sameiginlegt með Jordan

Í þessu samhengi er vert að nefna annan leikmann, Michael nokkurn Jordan, sem er oft nefndur besti körfuboltamaður allra tíma. Jordan vann sex meistaratitla á ferlinum, en Kobe fimm og segir Svali að Kobe hafi sviðið það til síðasta dags, enda voru þeir oft bornir saman og áttu fleira sameiginlegt en að vera góðir í körfubolta.

„Ég held að líkingin við Jordan sé góð. Þeir lögðu báðir mikið á sig, en lögðu einnig alveg ofsalegar kröfur á samherja sýna. Þeir stjórnuðu því hvaða leikmenn voru keyptir, hverjir voru látnir fara, hvaða þjálfarar komu, og svo fram vegis. Allt var þetta þeirra leið til að ná árangri, út frá þeirra metnaði,“ segir Svali.

„Þeir eru báðir fæddir með ótrúlega hæfileika í körfubolta, en lögðu líka mikið á sig til að þroska þá.“ Í leit sinni að fullkomnun , þurftu þeir félagar einmitt að fórna mörgu. Allt þurfti fyrir sigrinum að víkja. 

„Það var þessi ofsalegi sigurvilji sem einkenndi þá. Þeir voru tilbúnir til að fórna öllu, jafnvel vináttu, fyrir það að sigra leiki. Það eru til sögur af því að þeir hafi ekki aðeins verið erfiðir við samherja sína, heldur á köflum alveg hreint óþolandi,“ segir Svali og bætir því við að þær kröfur sem þeir lögðu á samherja sína, hefðu verið kröfur sem ekki hafi verið hægt að standa undir.

Þeir höfðu stjórnlausan metnað fyrir árangri, sem er ofsalega áhugavert út frá þeim fræðum sem ég hef áhuga, sálfræði.

Ekki sjálfgefið að gæfan fylgi utan vallar

Svali nefnir hér sálfræði. Skyldi engan undra að áhugafólk um mannlegt eðli fái vatn í munninn þegar stórmenni á borð við Kobe Bryant, og Michael Jordan eru nefnd á nafn. Það er nefnilega ekki sjálfsagt mál að komast heill í gegnum svona feril. Ekki aðeins líkamlega, heldur einnig andlega. Á hverju kvöldi er barið á þér, á hverju kvöldi einsetja andstæðingar þínir sér það eitt að stöðva þig. Og þú vilt vinna, alltaf. Þú vilt verða fullkominn. Og svo einn daginn, er þetta bara búið. Og hvað gerist þá?

„Þeir þurftu að fórna miklu fyrir þennan árangur. Michael Jordan býr held ég meira og minna í félagslegri einangrun. Ég held að hans líf sé ekki að skemmtilegasta sem til er. Kobe virðist hinsvegar hafa komist nokkuð heill í gegnum þetta. Hann virtist vera ofsalega skynsamur maður í grunnninn,“ segir Svali.

Það er einmitt svo á þeim stutta tíma sem leið frá því að Kobe Bryant lagði skóna á hilluna vorið 2016, og þar til hann lést í síðustu viku, tókst honum að gera hluti sem fáir geta leikið eftir.

Á sinn einstaka hátt kvaddi hann stóra sviðið með ljóði sem hann nefndi Kæri körfubolti. Þar, á hjartnæman hátt, líkir hann sambandi sínu við körfubolta við ástarsamband sem er komið að leiðarlokum.Hann framleiddi teiknaða stuttmynd undir lestri sínum á ljóðinu. Og hún, vann Óskarsverðlaun. Auðvitað.

„Mér fannst hann spila mjög vel úr sínum spilum eftir að hann hætti. Auðvitað er þetta táknrænt, hann hættir með ljóði. Hann gefur út stuttmynd sem margir héldu að myndi ekki ganga, en fékk svo Óskarsverðlaunin. Og það eftir þennan glæsilega feril,“ segir Svali.

Þú uppfylltir Lakers-draum sex ára drengs
Og fyrir það mun ég ávallt unna þér
En ég ekki lengur látið ást mína til þín heltaka mig
Þessi leiktíð er allt sem ég á eftir
Hjarta mitt þolir höggin
Hugur minn stritið
En líkami minn veit að kveðjustundin er runnin upp

Vakti athygli á íþróttum barna og kvenna

Þá var Kobe sömuleiðis ötull baráttumaður fyrir aukinni umfjöllun og umgjörð í kringum íþróttir barna, og kvenna. Dóttir hans, Gianna, sem lést einnig í þyrluslysinu hörmulega, þótti einkar efnileg körfuboltakona og var Kobe duglegur að fylgja henni á æfingar og í leiki.

„Hann hvatti konur í körfubolta til dáða og var orðinn góður talsmaður WNBA, kvennadeildar NBA. Hann talaði með öðrum hætti en menn höfðu áður gert um kvennakörfubolta. Í nýlegu viðtali var hann spurður að því hvort að hann sæi fyrir sér að kona gæti spilað einn daginn í NBA. Hann sagði að ein til tvær gætu gert það nú þegar,“ sagði Svali.

Kannski var Kobe einmitt á réttri leið með að stýra sinni leit að fullkomnun í frjósaman farveg. Í nýlegu viðtali sagði hann frá því hvernig hann kenndi dætrum sínum mikilvægi þess að leggja hart að sér. Í því hefði hann fundið bæði hvatningu og tilgang.