Orðalagið fara erlendis er almennt talið málvilla. Erlendis er þá aðeins talið geta táknað kyrrstöðu en ekki hreyfingu og sagt að það eigi almennt við um atviksorð sem enda á -is.

Þetta hefur Eiríkur Rögnvaldsson, fyrrverandi prófessor í íslensku, nýverið hrakið. Hann segir að allt frá 13. öld hafi orðasambandið fara erlendis verið þekkt. Orðasambandið geti ekki valdið misskilningi því að sögnin fara skýri merkinguna. Þá feli orðasambönd eins og ganga afsíðis, falla útbyrðis og sigla umhverfis í sér hreyfingu.

Eiríkur segir að einu rökin fyrir því að þetta sé málvilla séu því þau að það hafi verið kennt undanfarna áratugi.