Íslensku tónlistarverðlaunin verða veitt næsta vor fyrir þá tónlist sem þótti framúrskarandi á árinu sem er að líða. Opnað hefur verið fyrir tilnefningar á heimasíðu verðlaunanna og hvetja verkefnastjórar þeirra tónlistarfólk til að vera ófeimið við að tilnefna sig sjálft fyrir framlag sitt í tónlistarflóru liðins árs.
Aðventan er gengin í garð og árið brátt á enda. Senn líður að því að árið sem er að líða verði gert upp með tilheyrandi annálum, Áramótaskaupi og kosningu á fólki og listaverkum sem þykir hafa staðið upp úr á árinu. Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna voru tilkynntar um helgina og verða þau veitt snemma á næsta ári og í vor verða Íslensku tónlistarverðlaunin veitt fyrir þá íslensku tónlist sem þótti skara fram úr á árinu. Opnað hefur verið fyrir innsendingar á tilnefningum á heimasíðu hátíðarinnar.
Útgáfa hefur verið í algleymingi á þessu ári því að þrátt fyrir að sala á geisladiskum hafi dregist verulega saman þá er útgáfa og neysla á íslenskri tónlist í áður fáséðum blóma, að sögn verkefnastjóra tónlistarverðlaunanna, þeim Kristjáni Frey Halldórssyni og Margréti Eir Hönnudóttur. Sem dæmi um það sem staðið hefur upp úr á liðnu ári í tónlistarheiminum nefna þau landvinninga Hildar Guðnadóttur, Gyðu Valtýs, Víkings Heiðars, Of Monsters and Men og Kaleo. „Tónlistarmenn sem hafa verið að slá í gegn úti í heimi á erlendum markaði hafa verið áberandi. Það hefur verið sérstaklega frábært að sjá þessar stelpur vera tilnefndar til Grammy-verðlauna. Maður er strax byrjaður að tala um stelpurnar okkar,“ segir Margrét Eir.
Íslensku tónlistarverðlaunin eru veitt í fjórum flokkum en þeir eru: Sígild- og samtímatónlist, djass- og blústónlist, popp-, rokk-, hipphopp- og raftónlist og að lokum önnur tónlist sem er opinn flokkur, kvikmynda- og leikhústónlist, og þjóðlaga- og heimstónlist. Dómnefndin er skipuð fólki úr öllum kreðsum tónlistar en þar á meðal eru gagnrýnendur, útvarpsfólk og tónlistarmenn.
„Við viljum benda öllum þeim sem hafa komið að tónlistarflutningi eða haldið tónlistarviðburði til að senda inn tilnefningar. Við veitum hátt í fjörutíu verðlaun og eigum svo ótrúlega mikið af hæfileikaríku fólki í öllum kreðsum innan tónlistarinnar,“ segir Kristján Freyr og Margrét Eir tekur undir. „Ekki vera feimin við að senda sjálfa sig og eigin efni inn, það eru ekki allir með umboðsmenn og maður á bara að senda sig og standa með sjálfum sér.“ Enn fremur hvetja þau aðstandendur íslenskra tónlistamanna til að ýta við sínu fólki og hvetja þau til að senda inn efnið sitt. Opið verður fyrir umsóknir til 15. janúar.
Rætt var við Kristján Frey og Margréti Eir í Popplandi.