„Ég er með sterkan grunn í gamalli íslenskri bændamenningu og það skín einhvern veginn í gegn. Svo hef ég ferðast víða erlendis og þetta blandast einhvern veginn saman,“ segir Hulda Hákon listakona. Yfirlitssýning með verkum hennar stendur nú yfir í Listasafni Íslands.
Sýningin ber titilinn „Hverra manna ert þú?“ og spannar 40 ára feril Huldu. Verkin koma úr ýmsum áttum. „Mörg eru í minni eigu og önnur af einkaheimilum á Íslandi. Síðan fannst mér ánægjulegt að safnið fékk eitt verk lánað frá Malmö-Museum. Ég hef ekki séð það í 30 ár,“ segir Hulda.
Brutu reglu um tímaröð
Sýningarstjóri er Harpa Þórsdóttir. Að hennar sögn var mikið púður lagt í aðdraganda og undirbúning. „Við erum búin að hittast vikulega í rúmlega eitt ár og það eru ákveðin gæði að geta gefið sér ákveðin tíma í svona vinnu. Ég er mjög ánægð með það því ég held að við séum að uppskera, þó við séum að ná í verk sem eru löngu orðin til. Við erum að ná saman verkum sem hafa aldrei verið saman áður.“
Verkin eru sem fyrr segir fengin úr ólíkum áttum og spanna langt tímabil. Engu að síður kallast þau á í sameiginlegum táknum og hliðstæðum viðfangsefnum. „Verkin hrópa sum hvert á annað. Við lögðum upp með að brjóta reglu sem oft er gerð við yfirlitssýningar. Það er þessi krónólógía eða tímaröð, til þess að fólk sjái ákveðna þróun. Það er áhugaverðara við verk Huldu að sjá hvernig verkin tala saman, hvernig ólíkur tími kallast á í rauninni því hún hefur alltaf sótt úr saman brunni, hún sækir í íslenskt tungumál, gömul gildi, hún sækir í samskiptahefðir og venjur og ákveðna mannasiði og hún sækir í gagnrýni og pólitík, henni er ekki alveg sama hvernig hlutir þróast,“ segir Harpa.
Eins og fegrunaraðgerð
Finna má mörg dæmi um þetta samtal á sýningunni. „Hér er eitt verk sem heitir Hamraborg, þar stillum við upp Hamraborginni sem ég gerði á sama tíma og verkið Manhattan skyline. Ég fann svo mikla samsömun í Wall Street svæðinu þar sem þessi fallegi veggur er og svo Hamraborginni. Það var gaman að setja það saman núna, ég held að það séu myndir sem myndu aldrei vera sýndar saman,“ segir Hulda.
Aðspurð segir Hulda það hafa verið áhugavert ferli að setja saman sýningu sem þessa. „Þetta er dálítið eins og að fara í gegnum fegrunaraðgerð eða eitthvað svoleiðis. Gólfið hér er svo mikið haf og ég var semsagt að reyna að láta mér takast að ráða yfir salnum. Ég held að mér hafi tekist það.“
Nánari upplýsingar um sýninguna má finna hér.