Á Íslandi fer þeim fjölgandi sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Íslensk málnefnd hefur sent frá sér sína 13. ályktun og bendir á að Íslendingar verði að velta fyrir sér hvaða áhrif þessar nýju aðstæður kunni að hafa á íslenska tungu og kallar eftir vitundarvakningu um mikilvægi íslenskunnar.
Íslensk málnefnd stóð fyrir málræktarþingi í Þjóðminjasafninu í dag um þetta efni, sem nefnist Íslenska á ferðaöld. „Íslenskan, eins og við vitum er mjög fámennt tungumál sem er talað af mjög fáum, sennilega eitt viðkvæmasta opinbera tungumál í heiminum,“ segir Ármann Jakobsson, varaformaður málefndarinnar.
Ármann segir að þar af leiðandi sé íslenskan í stöðugri hættu og að hún þrifist mjög líklega ekki vel nema með stuðningi stjórnvalda, til dæmis í gegnum skólakerfið og menningarstyrki. Það sé því mikilvægt að sá stuðningur beinist að réttum hlutum, að fénu sé veitt á þann stað þar sem það geri mest gagn. Því hugsi Íslensk málnefnd stöðugt um það hvar hætturnar liggi og hvar þurfi að efla stuðninginn.
Íslenska á ferðaöld
Íslensk málnefnd endurskoðar áherslu sína á fimm ára fresti og hefur hver árleg ályktun snúist um eitt mikilvægt stefnuatriði. Þannig snerist ályktunin árið 2016 um netið og mikilvægi þess fyrir tunguna. Unglingamenningin var svo tekin fyrir árið 2017, bæði unglingabókmenntir og listir og menntakerfið.
„Nú snýst ályktunin um þessa skrýtnu stöðu sem er komin upp, í kjölfar þess að það eru alltaf miklu fleiri á Íslandi sem tala ekki íslensku en þeir sem tala íslensku.“
Ármann segir að sá mikli fjöldi fólks sem kemur til landsins, til lengri eða skemmri tíma, til að vinna, hafi þær afleiðingar að notkun enskunnar aukist til muna. Ofan á þetta leggst svo hinn mikli fjöldi ferðafólks sem kemur til landsins, sem þarf meðal annars þjónustu á tungumáli sem það skilur. „Þá er spurningin, hverfur íslenskan algjörlega?“
Það má ekki verða aukaatriði að fólk læri íslensku, segir Ármann. „Það þarf að kenna fólki íslensku og það þarf að greiða götu þeirra sem vilja læra íslensku. Það vilja held ég allir, sem ætla að búa hér í lengri tíma, kunna tungumálið. Fólk hefur áhyggjur af því að vera skilið eftir fyrir utan tungumálið.“
Rætt var við Ármann Jakobsson í Mannlega þættinum í tilefni ályktunar Íslenskrar málnefndar undir yfirskriftinni Íslenska á ferðaöld. Viðtalið er hægt að hlusta á í fullri lengd í spilaranum hér fyrir ofan.