Ný kvikmynd breska leikstjórans Asif Kapadia um einn besta knattspyrnumann sögunnar kom út á dögunum og þykir myndin undirstrika tvíeðli söguhetjunnar sem er í klofinn í Diego og svo Maradona. Marta Sigríður Pétursdóttir kvikmyndagagnrýnandi Lestarinnar fjallar um myndina.


Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:

Diego Armando Maradona er af mörgum talinn einn besti knattspyrnumaður sögunnar. Hann er óumdeilanlega lifandi goðsögn en hann hefur líka verið skotspónn hæðni og haturs. Maradona er ekki síður þekktur fyrir skapofsa, kvensemi og kókaínfíkn en snilligáfu sína á knattspyrnuvellinum. Ég verð að viðurkenna að ég var nokkuð hissa þegar Maradona birtist sprelllifandi, ástríðufullur og ansi heitt í hamsi í áhorfendastúkunni á leikjum landsliðs Argentínu á heimsmeistarakeppninni í fótbolta á síðasta ári. Ég var alls ekki með það á hreinu hvort hann væri lífs eða liðinn. Ég var heldur ekki lengi að stökkva á grínlestina með internetinu og skemmti mér vel yfir öllum þeim „meme“ og hreyfimyndum sem spruttu upp eins og gorkúlur og gerðu grín að andlitsgeiflum og viðbrögðum hans við frammistöðu landsliðsins á fótbolta-vellinum. Maradona er fífl sem okkur er öllum óhætt að gera stólpagrín að, kókaínfíkill, vitleysingur og skíthæll. Þetta er sannleikur sem ég hef trúað frá því að ég var barn. Þangað til ég horfði á nýjustu heimildarmynd breska leikstjórans Asif Kapadia um Diego Maradona.

Leikstjórinn Kapadia er einna þekktastur fyrir heimildarmyndina Amy um söngkonuna Amy Winehouse og Senna sem fjallaði um Ayrton Senna, brasilískan Formúlu 1 ökuþór og dramatískan feril og dauðdaga hans. Líkt og í þessum fyrri heimildarmyndum Kapadia notar hann gamalt myndefni sem hann klippir saman og mikið af því er áður óséð. Það má segja að Kapadia sérhæfi sig í að segja harmsögur einstaks hæfileikafólks en Amy og Diego Maradona eiga það sameiginlegt að hafa orðið fórnarlömb eigin frægðar og fíknar, í fyrstu hafin upp í hæstu hæðir en svo felld vægðarlaust niður af stalli almenningsálitsins.

Myndefnið sem Kapadia notar í myndinni um Maradona er mikið til áður óséð og úr einkasafni. Raddir viðmælenda, Maradona sjálfur, ættingjar, íþróttafréttamenn, sagnfræðingar og fólk úr fótboltaheiminum segja svo frá yfir myndefninu án þess að koma nokkurn tímann í mynd þannig að leik-stjórinn notar ekki hefðbundið viðtalsform í myndinni sem ljær henni viðeigandi andrúmsloft nostalgíu. Kapadia notaði aftur á móti hefðbundið viðtalsform í mynd sinni um Amy Winehouse sem einnig blandaði saman áður óséðu myndefni úr einkasafni og fréttamyndefni til þess að vefa saman og skilja harmsögu hinnar ungu og hæfileikaríku söngkonu sem lést langt fyrir aldur fram árið 2011, aðeins 27 ára gömul. Amy hneykslaði og heillaði almenning með einstökum hæfileikum sínum líkt og Maradona.

Heimildarmyndin Diego Maradona hverfist fyrst og fremt um Napoli-ár knattspyrnumannsins og sagan hefst árið 1984 þegar Maradona hefur verið keyptur frá Barcelona fyrir sögulega háa upphæð til Napoli sem þá var á botninum í ítalska fótboltanum. Myndin fer lítillega í uppvöxt Diegos í Villa Fiorito, fátækrahverfi Buenos Aires en það er hefðbundin öskubuskusaga. Frá 15 ára aldri var Maradona með alla fjölskylduna á sínu framfæri. Myndin fer lítið í saumana á því sem gerðist í Barcelona áður en Diego Maradona kemur til Napoli, enda er það borgin þar sem frægðarsól hans skín skærast en líka þar sem hann hrapar niður eins og Íkarus sem flaug alltof nálægt sólinni, í borginni sem tók hann í dýrlingatölu. Myndin undirstrikar tvíeðli sögu-hetjunnar sem er í klofin í Diego og svo Maradona en eins og einkaþjálfarinn hans kemst að orði þá var hann eins og tvöfaldur persónuleiki, eins konar Jekyll og Hyde, Diego og Maradona. Einkaþjálfarinn hans og náinn samstarfsmaður útskýrir að Diego myndi hann fylgja á heimsenda en Maradona ekki eitt einasta skref. Diego er strákurinn úr fátækrahverfinu með snilligáfuna og Maradona er stórstjarnan, skapofsamaðurinn, mafíósa-vinurinn, kvennabósinn og kókaínfíkillinn. En eins og Maradona segir sjálfur í myndinni þá þurfti hann að búa sér til þessa ímynd eða persónu til þess að lifa af og til þess að geta staðið undir væntingum heimsbyggðarinnar. Miðað við frægðina, ábyrgðina og óumdeilanlega snilligáfu hans er ekki að undra að hann hafi fyllst eins konar messíasarduld.

Heimildarmyndin hefst á bílferð í gegnum óreiðukennda Napoli-borg sem setur tóninn fyrir næstu 130 mínútur sem okkur áhorfendum eru gefnar til þess að mynda okkur nýja skoðun á Maradona, ævi hans og ferli. Sagan er að mörgu leyti lygileg og reyfarakennd og miðað við þau ótrúlegu afrek sem hann vinnur á sviði fótboltans er undarlegt hvað hann hefur notið lítillar virðingar á síðari árum en Kapadia tekst einstaklega vel til, eins og í Amy, að fletta ofan af ástæðunum sem þar liggja að baki og ábyrgð fjölmiðla í þeim efnum sem hafa gríðarlegt vald til þess að ritstýra ævisögum hinna ríku og frægu og þar með móta og hafa áhrif á almenningsálitið.

Kapadia tekst einnig snilldarlega að vefa sögu Maradona og fótboltans saman við pólitíska ástandið á Ítalíu á 9. áratugnum, tenginguna við Camorra-mafíuna og svo erfið tengsl Napoli við Norður-Ítalíu og jaðarstöðu borgarinnar innan ítalskrar menningar. Frá árinu 1984 og allt þar til hann leiðir heimaland sitt Argentínu til sigurs gegn Ítalíu á sínum heimavelli í Napoli árið 1990 var Maradona í dýrlingatölu í borginni. Hann varð heimsmeistari með Argentínu árið 1986 þar sem hann skorar sögulegt mark með aðstoð frá hendi guðs og honum tókst svo áður en yfir lauk að leiða lið Napoli tvívegis til sigurs í ítölsku deildinni og vinna Evrópukeppni félagsliða. En í hinum afdrikaríka leik á heimsmeistaramótinu 1990 snerist ítalska þjóðin gegn honum. Það fer ekkert á milli mála að Maradona var bæði bragðarefur og óumdeilanlegur snillingur á sviði fótboltans. Utan vallarins átti hann hins vegar við við vímuefnavanda að stríða og hann eignaðist son sem hann neitaði að gangast við í 30 ár. Sem sagt alls enginn dýrlingur. En eftir heimsmeistarakeppnina 1990 hætti Maradona að njóta verndar bæði yfirvalda, félags síns og svo á endanum mafíunnar líka þegar einkalíf hans, eiturlyfjaneysla og gjálífi komst á allra vitorð og hann sætti lögreglurannsókn. Á endanum flúði Maradona ásamt fjölskyldu sinni í skjóli nætur frá Napoli. Fullkomin andstæða við móttökurnar sem hann fékk við komuna til Napoli þegar hann var hylltur af tugþúsundum manna.

Eftir situr spurningin hver áhrif frægðarinnar voru á hann og á einstaklinga almennt? Hvaða manneskja getur staðið undir því að vera tekin lifandi í dýrlingatölu og svo vægðarlaust tekin niður af stallinum? Maradona var auk þess hundeltur af fjölmiðlum og gerður að skotspóni háðs og fyrirlitningar fyrir fíknivandamál sitt og síðar fyrir vaxtarlag sitt og þyngd. Hver skapaði þá skrímslið Maradona? Það voru ekki síður fjölmiðlar og ítalska þjóðin í hefndarhug sem tóku persónuna Maradona sem Diego hafði sjálfur að einhverju leyti skapað og gerðu að illmenni og andhetju. Myndin vekur einnig upp ýmsar vangaveltur um þjóðernishyggju og þá oft á tíðum öfgakenndu og hættulegu hjarðhegðun sem fylgir fótboltanum.

Leikstjóranum Asif Kapadia tekst að gera einstaklega áhugaverða og áhrifamikla mynd og það er ljóst að hann hefur unnið þrekvirki í klippingu ásamt klipparanum Chris King og tónlistina fyrir myndina gerir brasilíska kvikmyndatónskáldið Antonio Pinto en hann gerði meðal annars tónlistina fyrir City of God, City of Men og fyrir áðurnefndar heimildarmyndir efir Kapadia. Það þarf ekki að hafa áhuga á fótbolta til þess að geta notið myndarinnar. Diego Maradona segir sögu manns sem var tekinn í guðatölu og svo sviptur allri virðingu, af mörgum talinn einn besti knattspyrnumaður sögunnar sem á einhverjum tímapunkti hætti að vera hetja og var gerður að hirðfífli heimsbyggðarinnar og illmenni. Heimildarmynd Kapadia tekst að veita þessari ráðandi frásögn viðnám og vakti mig að minnsta kosti til umhugsunar um það hvernig ég hef séð og túlkað Maradona úr fjarlægð frá blautu barnsbeini. Enn fremur vekur myndin upp spurningar um það hvernig við sem samfélög búum til sögur, og förum með manneskjurnar sem eru persónur og leikendur í þeim á sviði fjölmiðlanna.