Friðrik Agni Árnason er fæddur og uppalinn á Íslandi. Hann er þrátt fyrir það ítrekað spurður hvaðan hann sé og er oftar en ekki ávarpaður á ensku af ókunnugum sem neita að trúa því að hann sé Íslendingur.

Hann fæddist í Reykjavík á aðfangadag 1987 og starfar sem dansari og lífstílsþjálfari hér á landi. Honum finnst hann jafn íslenskur og hver annar samlandi sinn en þegar hann hittir nýtt fólk er hann mjög gjarnan spurður hvaðan hann sé. Svari hann sannleikanum samkvæmt heldur fólk gjarnan áfram og spyr: „En hvaðan ertu upprunalega?“

Friðrik skrifaði pistil á Vísi nýverið sem heitir Íslendingurinn ég og Íslendingurinn þú þar sem hann segir frá reynslu sinni af því að vera Íslendingur sem er dökkur á hörund og vöktu skrif hans mikla athygli. „Þessi pistill er skrifaður í einlægni um minn veruleika sem Íslendingur sem fæddist hér og ber þennan húðlit,“ segir Friðrik Agni í viðtali við Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur og Huldu Geirsdóttur í Morgunútvarpinu. Hann viðurkennir að viðbrögðin við skrifum sínum hafi verið vonum framar. „Fólk sem ég þekki ekkert hefur skrifað mér persónulega, bæði fólk sem er fætt hér og er íslenskt í grunninn, fólk sem er blandað, ættleitt eða aðflutt. Þetta hefur vakið fólk til umhugsunar um hvernig við horfum á og tölum við fólk.“

Hefur aldrei heimsótt Indland

Móðir Friðriks fæddist í Indlandi en var ættleidd til Íslands aðeins þriggja ára gömul og hefur takmarkaða tengingu við upprunaland sitt. Friðrik hefur sjálfur aldrei heimsótt Indland og á enga fjölskyldu þar sem hann veit af og því er tenging hans við Indland einnig lítil sem engin. Samt virðist fólk stundum eiga auðveldara með að flokka hann sem Indverja en Íslending.

Hann segir að þó viðbrögðin séu almennt góð við skrifum hans og hann upplifi mikinn stuðning hafi hann orðið var við neikvæðar athugasemdir á vefmiðlum frá einmitt fólki sem skilur ekki hvers vegna hann geti ekki hreinlega „sagt sannleikann“ um uppruna sinn.

„Sumir segjast hreinlega ætlast til þess að maður útskýri strax frá byrjun að maður sé indverskur eða blandaður. Ég hins vegar fæddist hér á landi, hef enga tengingu við Indland og get ekki sagst vera þaðan,“ segir Friðrik. „Maður spyr sig hvað það sé að vera Íslendingur? Er það bara hvítt fólk sem getur rakið ættir sínar aftur til ársins 900 á Íslandi?“

Afgreiðslufólk neitar að tala íslensku

Þegar Friðrik tók ákvörðun um að skrifa pistilinn átti hann í samræðum við sambýlismann sinn um ólík viðmót sem þeir mæta frá ókunnugu fólki þó þeir séu báðir fæddir og uppaldir á sömu slóðum. „Maðurinn minn áttaði sig á því í samtali okkar hvað ég hefði oft átt í samskiptum sem hann myndi aldrei eiga í,“ segir Friðrik sem segist til dæmis lenda í því nánast oftar en ekki að vera ávarpaður á ensku í verslunum vegna húðlitar síns og segir að fólk færi sig jafnvel ekki yfir á íslensku þó Friðrik svari á móðurmálinu. „Fólk talar við mig á ensku en þegar ég svara á íslensku heldur manneskjan gjarnan áfram að tala ensku, jafnvel þó maður sjái á nafnspjaldinu að hún heiti til dæmis bara Guðrún,“ segir hann og hlær. 

Systkinin verða öll fyrir fordómum

Hann segist í gegnum tíðina hafa orðið fyrir ýmsum fordómum vegna litarhafts. Hann og syskini hans urðu öll fyrir einhverju aðkasti í uppvextinum og það gerist enn. „Við höfum lent í viðmóti sem er óþægilegt, ummælum frá fólki á götum, í strætóskýlum og biðröðum. Þetta gerist ekki á hverjum degi en nógu oft til að það hafi áhrif,“ segir hann en bætir við að hann skilji að framandi útlit hans veki forvitni fólks sem vilji vita hvaðan litarhaft hans kemur. „Þetta er bara spurning um milliveg og hvernig maður orðar hlutina.“

Heimurinn er að breytast

Friðrik bendir á að heimurinn taki sífelldum breytingum og að með einfaldari samgöngum, ættleiðingum og flóttamannastraumi til dæmis þá sé íslenska þjóðin að verða blandaðari. „Það er mikilvægt að fólk átti sig á hvernig heimssamfélagið virkar í dag, að fólk sé að koma frá stríðshrjáðum löndum og við þurfum að taka vel á móti fólki að öðrum uppruna og hjálpa þeim að aðlagast.“

Rætt var við Friðrik Agna Árnason í Morgunútvarpinu og má hlýða á allt innslagið í spilaranum efst í fréttinni.