Þeir eru heimsfrægir á Íslandi, hinir geðþekku og sívinsælu popparabræður úr Hafnarfirði, Jón og Friðrik Dór Jónssynir. Þeir semja tónlistina í glænýrri uppsetningu Þjóðleikhússins á verkinu Shakespeare verður ástfanginn sem frumsýnt verður næstu helgi.

Bræðurnir Friðrik Dór og Jón Jónssynir eiga báðir tíu ára starfsafmæli sem tónlistarmenn um þessar mundir. Þeir voru báðir á fjölum leikhúsa á yngri árum en þeir tóku þátt í söngleikjauppfærslum þegar þeir voru nemendur í Verslunarskólanum. Hjartaknúsararnir og poppgoðin kíktu í Morgunkaffi til Bjargar Magnúsdóttur og Gísla Marteins Baldurssonar og sögðu meðal annars frá nýjasta samstarfsverkefni þeirra sem mætti segja að sé nokkurs konar endurkoma þeirra bræðra í leikhús.

Veit á hvaða augnablikum gæsahúðin kemur

Friðrik Dór og Jón semja tónlistina í leikverkinu Shakespeare verður ástfanginn sem verður frumsýnt næsta föstudagskvöld í Þjóðleikhúsinu. Selma Björnsdóttir leikstjóri hringdi í þá bræður á vordögum svo verkefnið hefur verið í vinnslu um hríð en það er loksins komið að uppskeru. Sjálfir munu þeir þó ekki flytja lögin í sýningunni en það verður stórstjarnarn GDRN sem sinnir því. Með aðalhlutverk fara Aron Mola leikari og samfélagsmiðlastjarna sem sjálfur Shakespeare og Lára Jóhanna Jónsdóttir leikur Víólu sem Gwyneth Paltrow lék í kvikmyndinni. „Ég er svo spenntur fyrir frumsýningarkvöldinu. Við förum út að borða og svo beint í leikhús að horfa,“ segir Jón. „Ég mun fá gæsahúð og veit nákvæmlega hvenær.“

„Hvað myndi Jón gera?“

Samstarf þeirra í tónlistarheiminum hefur færst í aukana í gegnum tíðina en þótt þeir hafi ekki unnið saman þegar þeir voru að taka sín fyrstu skref í bransanum leituðu þeir reglulega til hvor annars til að fá góð ráð og uppörvun. „Ég hugsa alltaf bara: hvað myndi Jón bróðir gera?“ segir Friðrik Dór um þær stundir sem hann hefur lent í vanda en bróðir hans bætir við: „Hann er náttúrulega með það húðflúrað á bringuna.“

Allir syngja með

Sem fyrr segir hefur samstarf þeirra orðið tíðara en þeir hafa bardúsað ýmislegt saman og sem dæmi sömdu þeir þjóðhátíðarlagið 2018. Einnig léku þeir fyrir dansi í brúðkaupi Gylfa Þórs Sigurðssonar og Alexöndru Helgu Ívarsdóttur en mikið fór fyrir því á samfélagsmiðlum fyrr á árinu.

Bræðurnir eru báðir í þeirri öfundsverðu stöðu að geta haldið tónleika þar sem þeir spila eingöngu eigið efni og eru orðnir vanir því að allur salurinn taki undir enda þekkja Íslendingar þá bræður og lög þeirra vel. „Stundum er maður beðinn að spila til dæmis í brúðkaupi lag sem maður hélt að enginn þekkti og maður hugsar: Hefur þú í alvöru verið að hlusta á þetta?“ segir Jón stoltur.

Vissu ekki að þeir væru með tónleika

Bræðurnir rifja það upp þegar þeir voru nýverið beðnir að koma til Egilsstaða að troða upp en höfðu ekki hugmynd um hvað færi þar fram. Þeir héldu að þeir ættu að taka nokkur lög í starfsmannapartíi en þegar þeir lenda er þeim tilkynnt að þeir séu um það bil að fara að stíga á svið á tónleikum í Valaskjálf og það var þegar uppselt. 

„Við bara fengum okkur gott að borða, settum upp lagalista og svo bara: Góða kvöldið! Tókum einn og hálfan tíma með fólkinu,“ rifjar Jón upp. „Þetta voru sitjandi tónleikar og ég virka best sitjandi að tralla. Styrkleikur Frikka er svo að henda hitturunum í gang og hrista upp balli.“

Þakklátir fyrir að Íslendingar séu að hlusta

Friðrik Dór og Jón hafa gjarnan verið orðaðir við bransann úti í hinum stóra heimi. 2012 voru færðar fregnir af því að Jón Jónsson hefði verið uppgötvaður af L.A. Reid og kominn á samning hjá Sony. Þá hélt Friðrik Dór kveðjutónleika fyrir skemmstu þar sem hann hugði á landvinninga erlendis en hann ætlaði til Ítalíu í hönnunarnám. Vegna anna og barneigna hafa þeir þó báðir komist að því að það fer best um þá á Íslandi í bili. „Þegar ég var að fatta að þetta væri ekki að gerast sagði Frikki við mig: Ég er bara svo þakklátur fyrir að allir þessir Íslendingar séu að hlusta og ég ætla að gera það bara ógeðslega vel. Þetta er markaðurinn okkar og ef maður er að gera það vel er þetta besta vinna í heimi,“ segir Jón. „Maður þarf ekkert að vera í rútu að keyra á milli stórborga.“

Vörusvik að Frikki flytti ekki úr landi

Friðrik tekur undir þetta. „Lagið Where everybody knows your name lagið úr Staupasteini, mér líður eins og ég sé alltaf í því lagi,“ segir hann. „Það eru allir alltaf bara: Nei blessaður! Það sem ég er þakklátur fyrir er að ef maður getur gert þetta, gert það vel og fætt sig og klætt en líka sinnt fjölskyldunni, það eru rosaleg forréttindi.“

Sem fyrr segir hélt Friðrik Dór kveðjutónleika en endaði svo á að fara ekki langt, flestum aðdáendum hans til mikillar gleði. Þó voru ekki allir eins sáttir eftir tónleikana að átta sig á að popparinn væri ekki að fara neitt. „Það hringdi maður í mig og krafði mig um útskýringu á þessum vörusvikum, eins og varan sem hann hefði verið að kaupa væri loforð um að ég flytti til útlanda.“

Eins og síðustu ár verða bræðurnir með sameiginlega jólatónleika í ár í heimabæ sínum í Hafnarfirði. „Ég veit ekki hvenær þetta fer í sölu en við verðum í Bæjarbíói í gríðarlegu stuði,“ lofar Jón Jónsson að lokum.

Rætt var við bræðurna Jón og Friðrik Dór Jónssyni í Morgunkaffinu á Rás 2 og má hlýða á allt viðtalið í spilaranum hér efst í fréttinni.