Halldór Armand rýnir í kaupmann Shakespeares í Feneyjum og hvað það er sem gæti valdið stjórnlausri depurð hans, og hvort það skipti yfirleitt nokkru máli.


Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

„In sooth I know not why I am so sad.“

Svona hljómar fyrsta setningin í Kaupmanninum í Feneyjum eftir Shakespeare, þar sem Antonio, kaupmaðurinn sjálfur, lýsir því yfir að hann skilji ekki sína eigin depurð. Satt best að segja veit ég ekki hvers vegna ég er svona dapur, segir hann. „It wearies me, you say it wearies you.“ „Hún þreytir mig, þú segir að hún þreyti þig,“ heldur kaupmaðurinn áfram. „En hvernig ég smitaðist af henni, fann hana, eða hlaut hana, úr hverju hún er, eða hvernig hún varð til, veit ég ekki. Og svo skyni skroppin depurð sýnir mér að ég er langt frá því að skilja sjálfan mig.“

Samferðamenn hans, Salarino og Solanio, taka þá að setja fram kenningar um orsakir depurðarinnar og bergmála þar að vissu leyti það sem vinir Jobs segja í Gamla testamentinu, þegar þjáningarsaga hans stendur sem hæst. Það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir mótlætinu, í þessu tilviki depurðinni. „Jú, Antonio, það hlýtur að vera vegna þess að þú hefur svo miklar áhyggjur af skipunum þínum sem varnarlaus sigla um dimmblá höfin, berskjölduð fyrir alls konar hörmungum. Ef ég ætti svona verðmæt skip, sem hlaðin eru dýrmætum farmi, á hafi úti,“ segir Solanio, „þá væri ég hérna rífandi upp stráin til að átta mig á vindáttinni og lægi yfir siglingakortum og veðurspánni, allt sem gæti mögulega valdið mér fjárhagslegum skakkaföllum myndi efans vegna gera mig dapran.“ „Vindurinn sem kælir súpuna mína myndi fylla sjálfan mig kvíða,“ bætir Salarino við, „þegar hann léti mig íhuga það tjón sem vindur getur valdið úti á rúmsjó. 

En kaupmaðurinn bægir þessum útskýringum frá sér. Nei, þetta tengist viðskiptum hans ekki neitt. Þá hrapa félagarnir að þeirri ályktun að hann hljóti að vera ástfanginn. Það er jú alltaf nokkuð traust ávísun á kvíða og depurð í brjósti manna. En Antonio blæs á þær ásakanir sömuleiðis. „Segjum þá einfaldlega að þú sért dapur vegna þess að þú ert ekki glaður,“ segir Solanio, „alveg eins og þú gætir verið hoppandi kátur, og sagt það vera vegna þess að þú ert ekki dapur.“

Stuttu síðar segir Gratiano við Antonio: „Þú lítur ekki vel út, herra Antonio, þú hefur of mikið álit á þessum heimi. Þeir sem taka hann of alvarlega glata honum. Trúðu mér, þú líkist ekki sjálfum þér.“ Og Antonio svarar: „Ég sé heiminn aðeins sem heiminn, Gratiano. Svið þar sem hver maður þarf að leika hlutverk sitt. Og mitt er hlutverk hins dapra.“

Óendanlegt magn af engu

Það er til nóg af kenningum um það hvers vegna Antonio er svona dapur, en við komumst aldrei að því í verkinu. Aðalatriðið er vitaskuld að hann veit það ekki einu sinni sjálfur. Mér hefur alltaf þótt þessi ásökun Gratianos í garð Antonios, að hann megi ekki taka heiminn svona alvarlega, svolítið ósanngjörn, ónærgætin og eiginlega ljót. Það er svo auðvelt að segja þetta við dapra manneskju, enda er það oft gert – „heyrðu góða, þú verður bara að læra að slaka aðeins á, brosa aðeins yfir hlutunum, kastaðu þínum sorgarklæðum“ – eins og það sé einhver sérstakur valkostur. Sannleikurinn er sá að gæti Antonio valið að vera kátur, þá myndi hann næstum því ábyggilega gera það. Ég hef aldrei hitt dapra manneskju sem vill vera döpur. En til að bæta gráu ofan á svart sakar Gratiano Antonio síðan um uppgerð, það er, að sá síðarnefndi þykist vera dapur, leyndardómsfullur og þögull, til að veita sjálfum sér reisn og gravitas. „Vertu ekki að fiska svona með melankólíuna sem beitu,“ segir hann.

Úff. Síðar afgreiðir Bassiano Gratiano reyndar nokkuð vel sem mann sem „segir óendanlega mikið af engu, meira en nokkur annar maður í Feneyjum.“

Það sem gerir Antonio mikilfenglegan í mínum augum þarna í upphafi er að hann gengst við því að hann viti ekki hvers vegna hann er dapur, hann leitar ekki skýringa eða setur fram kenningar út í bláinn, heldur sættir sig við þá grimmu staðreynd að skilningsleysið sé um leið staðfesting á því að hann verði að svara neitandi hinum ævagömlu spakmælum um að þekkja sjálfan sig.

Í sumar flutti ég hér pistil sem kallaðist Varnarræða fyrir melankólíuna og hann fól í sér vissa málsvörn fyrir hlutskipti fólks á borð við Antonio. Það kann nefnilega að vera að tilfinningin depurð eigi oft rétt á sér og sé einfaldlega sú fórn sem við færum fyrir það að geta virt fyrir okkur sköpunarverkið í allri sinni ógnvekjandi dýrð. Og líklega er þetta eitthvað sem margir, ef ekki flestir, kannast við, að fyllast depurð, en hafa í sannleika sagt ekki hugmynd um það hvers vegna. Það eitt og sér getur síðan auðveldlega orðið að uppsprettu enn frekari angistar. Okkur líður eins og við verðum að geta útskýrt þessa líðan einhvern veginn, verðum að geta réttlætt hana, varið hana fyrir dómi tilvistarinnar, unnið sigur í héraði, sloppið við áfrýjun, vegna þess að við þekkjum ekkert annað en að lifa og hrærast í umhverfi sem segir okkur að það sé óvenjulegt og óeðlilegt að vera ekki hoppandi kátur öllum stundum. Já, ógnarstjórn hinnar fölsku lífsgleði heldur okkur í pælingafangelsi. Hvergi óma kveinstafir okkar hærra en þar fyrir innan rimlana.

Austurvöllur vættur táraflóði

Depurð og sorg eru svo ríkulegur og óumflýjanlegur hluti af mannlegu hlutskipti að þegar látið er eins og þær stöllur séu ekki til staðar, eins og þær eigi sér ekki tilverurétt, þá verður heimurinn grunnur og lítt áhugaverður. Bestu brandararnir bera ávallt keim depurðar og sorgar. Bestu listaverkin snúa sér ekki undan sorg og depurð. Og besta hugsunin liggur um dali depurðar og sorgar. Það er ekki vegna þess að við eigum að vera sorgmædd og döpur – hér er svo sannarlega ekki verið að upphefja þunglyndi – heldur vegna þess að heimurinn er tragískur staður. Hann er táradalur, ekkert pepp, enginn orkudrykkur, enginn markþjálfi breytir þeirri staðreynd. Þess vegna var áhrifamikið að sjá forsætisráðherra Íslands klökkna í ræðustól í umræðu um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Það varði ekki nema nokkrar sekúndur á skjánum, hún mismælti sig, röddin brast, og svo var hún horfin úr mynd, en samt var þetta fyrir áhorfanda eins og að sjá frost hlána skyndilega á bílrúðu. Á svipstundu varð allt skýrt. Henni hafði verið falin ábyrgð á tregaljóði, hún þurfti að svara fyrir harmsögu, sem hún skrifaði ekki, og hjarta hennar brast.

Hérvistardagar okkar eiga alveg örugglega að snúast um það að njóta lífsins upp að því marki sem við getum, en hér verður því haldið fram að það sé í raun og veru ekki hægt, án þess að fela depurð sæti við borðið. Það er þó ekki þar með sagt að við eigum öllum stundum að vera „úrvinda af andvörpum okkar“, eins og segir svo skemmtilega í Davíðssálmum. „Ég lauga rekkju mína tárum hverja nótt, væti hvíluna táraflóði,“ segir skáldið. En stundum grunar mig að þetta sé ein leið til þess að skilgreina fullorðinsárin. Hvenær verðum við fullorðin, hvenær kveðjum við barnæskuna? Þegar heimsmynd okkar verður tragísk – og um leið ljóðræn, djúp og fögur.

„Ekki örvænta, Antonio,“ kalla ég 400 ár aftur í tímann til hafnarbakkans í Feneyjum. Þú ert bara manneskja og verkefni þitt að þekkja sjálfan þig verður eilífðarverkefni. Depurð þín gæti stafað af skipunum úti á rúmsjó eða huldri ást þinni til Bassanios, eða samviskubiti yfir eigin viðskiptaháttum, eða sjálfsfyrirlitingu gyðingahatarans, eða heimshryggð yfir ósanngirni örlagagyðjanna, eða einfaldlega vegna þess að hlutverk þitt á leiksviði tilverunnar er aðeins tragískara en annarra, efnaskiptin í höfði þínu eru bara svona eins og þau eru. Með öðrum orðum: Kannski ertu bara þú sjálfur.

En ég veit að þú þarft engan útvarpspredikara frá 21. öld til að segja þér það.

Meira að segja þinn maður Kristur, hvers fordæmi þú ferð að þegar þú veðsetur Shylock þitt eigið hold, var „harmkvælamaður“ samkvæmt Jesaja spámanni, „kunnugur þjáningum,“ eins og þú. Og vor harmþrungna María, hin sorgmædda móðir hans, stendur enn þá við krossinn, eins og þú veist, og syrgir hann. Stabat mater dolorósa, juxta Crucem lacrimósa. Meira er kannski ekki að segja.