Næstu daga ræðst það hvernig Alþingi afgreiðir þriðja orkupakkann. Málið er það sem hefur fengið mesta umræðu á Alþingi, samanlagt 138 klukkstundir og 25 mínútum betur. Drjúgur meirihluti virðist vera fyrir innleiðingu þriðja orkupakkans á Alþingi þrátt fyrir að málið hafi vakið harðar deilur.

Hver er hugsunin að baki þriðja orkupakkanum?

Þriðji orkupakkinn var afgreiddur úr Evrópuþinginu árið 2009. Með honum á að tryggja frjálsa samkeppni á nýjum innri markaði Evrópusambandsins með raforku og gas, þvert á landamæri aðildarríkjanna. Þriðji orkupakkinn er framhald af fyrsta og öðrum orkupakkanum sem stuðluðu að markaðsvæðingu og aðskilnaði á framleiðslu og sölu raforku.

Markmið með þriðja orkupakkanum og nýmæli eru:

  • Að slíta í sundur rekstur orkuframleiðenda og dreifikerfa
  • að styrkja sjálfstæði eftirlitsaðila
  • stofnun ACER, yfirþjóðlegrar eftirlitsstofnunar með úrskurðarvald í ágreiningsmálum milli ríkja
  • samstarf þvert á landamæri um dreifikerfi og stofnun samstarfsvettvangs fyrir rekstraraðila dreifikerfa
  • aukið gagnsæi á neytendamarkaði

Til einföldunar má segja að pakkinn sé regluverk um flutning orku milli landa og um stofnun nýrrar orkustofnunar Evrópu (ACER). Stofnunin er samstarfsstofnun orkustofnana hvers aðildarríkis og hefur úrskurðarvald í deilum milli eftirlitsyfirvalda einstakra ríkja.

Hvers vegna er þriðji pakkinn til umræðu hér?

Ísland er hluti af evrópska efnahagssvæðinu. Sameiginlega EES-nefndin, sem fjallar um ESB-reglur sem taka þarf upp í EES-samninginn tók þriðja orkupakkann upp í EES-samninginn árið 2017. Það var gert með stjórnskipulegum fyrirvara allra EFTA-ríkjanna þriggja, Íslands, Noregs og Liechtenstein. Þá voru að baki samningaviðræður frá árinu 2010 þar sem rætt var hvernig þriðji orkupakkinn yrði innleiddur í lög EFTA-ríkjanna og hvaða undanþágur þau fengju.

Þriðji orkupakkinn tekur þó ekki gildi fyrr en viðeigandi stofnanir í hverju EFTA-ríkjanna hafa samþykkt hann. Hér þarf Alþingi að taka afstöðu til þingsályktunartillögu um innleiðingu þriðja orkupakkans og lagafrumvarpa sem honum tengjast. Þriðji orkupakkinn hefur verið innleiddur í Noregi og í Liechtenstein.

Hvaða undanþágur hefur Ísland fengið?

  • Ekki þarf að skilja að fullu að eignarhald á flutningskerfi og öðrum rekstri á orkumarkaði. Því þarf ekki að breyta eignarhaldi á Landsneti.
  • Samið var um tveggja stoða aðlögun vegna Samstarfsstofnunar eftirlitsaðila á orkumarkaði, ACER. Það þýðir að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, en ekki ACER tekur á ágreiningi um orkuflutning yfir landamæri gagnvart EFTAríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
  • Ísland er undanþegið öllum ákvæðum um jarðgas.
  • Ísland getur sótt um undanþágur frá raforkutilskipun um aðskilnað dreififyrirtækja, aðgengi að flutnings- og dreifikerfum, opnun markaða og gagnkvæmni. Þetta er sambærilegt heimildum sem Ísland fékk í öðrum orkupakkanum en hefur ekki nýtt.

Um hvað er helst deilt?

Í grunninn má segja að gagnrýni á þriðja orkupakkann snúi að því hvar ákvarðanir um orkumál séu teknar og af hverjum. Þetta snýst bæði um fullveldissjónarmið, um að Íslendingar taki ákvarðanirnar sjálfir en séu ekki undir aðra settir, og hversu mikið framsal á völdum til annarra ríkja sé heimilt. Deilan birtist líka í því hvort og þá hversu mikil völd ACER hafi hérlendis og hvað, ef eitthvað, þriðji orkupakkinn, þýði fyrir hugsanlega lagningu sæstrengs.

Hvað þýðir þriðji orkupakkinn fyrir sæstreng?

Andstæðingar þess að þriðji orkupakkinn verði innleiddur á Íslandi óttast að innleiðingin leiði til þess að íslensk stjórnvöld geti ekki komið í veg fyrir lagningu sæstrengs milli Íslands og Evrópu. Þessu hafa meðal annars Orkan okkar og Arnar Þór Jónsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur haldið fram. Meðal annars hefur verið vísað til aðfararorða þriðja orkupakkans um að ríki leggi ekki hömlur á raforkuflutninga yfir landamæri. Því geti ríkið bakað sér skaðabótaskyldu með því að hafna sæstreng. Þessu hafa aðrir hafnað.

Bjarni Már Magnússon, prófessor við Háskólann í Reykjavík og sérfræðingur í hafrétti, segir rangt að íslensk stjórnvöld missi ákvörðunarvald um sæstreng. Til dæmis kæmu hafréttarsamningar í veg fyrir slík skaðabótamál og íslensk stjórnvöld væru í fullum rétti til að koma í veg fyrir sæstreng. Davíð Þór Björgvinsson, varaforseti Landsréttar, segir langsótt að lesa úr þriðja orkupakkanum skuldbindingu um sæstreng og telur að ekki sé tekin áhætta með fyrirhugaðri innleiðingu. Skúli Magnússon, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og fyrrverandi skrifstofustjóri EFTA-dómstólsins, hafnar rökum um að lagning sæstrengs tengist þriðja orkupakkanum og Margrét Einarsdóttir, dósent í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, segir fjarstæðukennt að lesa lagalega skuldbindingu um sæstreng úr almennum aðfararorðum þriðja orkupakkans.

Stefán Már Stefánsson, prófessor emeritus við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðrik Árni Friðriksson lögfræðingur hafa sagt að fyrirvarar Íslands við innleiðingu þriðja orkupakkans yrðu að vera mjög skýrir ef þeir ættu að halda. Þeir sögðu í bréfi til utanríkisnefndar að þegar öll þingmálin, greinargerðir og önnur gögn séu lesin saman sé fyrirvörunum réttilega haldið til haga.

Hefur ACER áhrif á Íslandi?

ACER, Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, tók til starfa 2011, tveimur árum eftir að ESB samþykkti þriðja orkupakkann. Stofnunin veitir löndunum sem heyra undir pakkann ráðgjöf og á að sjá til þess að reglunum sé framfylgt eins í öllum löndunum. Ef ósamkomulag er um túlkun reglnanna getur ACER tekið af skarið og tekið endanlega ákvörðun. Við upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn sömdu EFTA-ríkin við ESB um að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, en ekki ACER, úrskurðaði um álitamál í EFTA-ríkjunum.

Ekki eru allir sannfærðir um að þetta dugi. Orkan okkar segir að ACER muni skera úr um sæstreng og íslensk stjórnvöld geti ekki staðið gegn því. Stofnunin fái vald til að úrskurða í orkumálum á Íslandi án þess að hún heyri undir íslensk stjórnvöld. Undir þetta tekur Arnar Þór Jónsson héraðsdómari.

Hilmar Gunnlaugsson lögmaður skrifaði lokaritgerð sína í meistaranámi á sviði orkuréttar um ACER og áhrif þriðja orkupakkans. Hann segir að með innleiðingu pakkans sé hvorki verið að taka ákvörðun um að leggja sæstreng né framselja vald til ACER. Raunar verður erfiðara að leggja sæstreng eftir innleiðingu þriðja orkupakkans en fyrir, segir hann og vísar til fyrirvara sem settir eru við málið.

Hvað með stjórnarskrána?

Eitt deiluefnanna er hvort innleiðing þriðja orkupakkans brjóti í bága við stjórnarskrá, hvort innleiðingin feli í sér meira framsal valds úr landi en heimilt er. Ekkert ákvæði um framsal valds er í stjórnarskrá og hefur oft verið deilt um hvort þingmál standist stjórnarskrá eða ekki. Þar má meðal annars nefna EES-samninginn.

Orkan okkar bendir á að stjórnarskráin leyfi ekki framsal valds til erlendra stofnana. Hún telur að hluti ríkisvalds og dómsvalds í orkumálum flytjist úr landi og því standist þriðji orkupakkinn ekki stjórnarskrá. Arnar Þór Jónsson héraðsdómari hefur lýst þeirri skoðun að stofnanir Evrópusambandsins hafi metið að fjórfrelsisregla ESB standi stjórnarskrám einstakra ríkja framar.

Aðrir hafa andmælt þessu. Davíð Þór Björgvinsson, landsréttardómari og fyrrverandi dómari við EFTA-dómstólinn, segir segir innleiðinguna ekki fela í sér stjórnarskrárbrot. Hið sama segir Hilmar Gunnlaugsson lögmaður. Hann bætir við að ef þriðji orkupakkinn bryti gegn stjórnarskrá tækju dómstólar einfaldlega stjórnarskrána fram yfir þau almennu lög sem væru notuð til að innleiða orkupakkann.

Hvað gerist ef Alþingi hafnar þriðja orkupakkanum?

Tekist hefur verið á um hvað gerist ef Alþingi samþykkir ekki þriðja orkupakkann. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði í nóvember í fyrra að það yrðu stórtíðindi í íslenskum stjórnmálum ef orkupakkinn yrði felldur. Slíkt gæti sett EES-samninginn í uppnám. Hið sama sagði Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins, í umsögn sinni um þriðja orkupakkann. Aðrir hafa bent á að EES-samningurinn gefi færi á að málum sé skotið aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar þótt svo það hafi ekki verið gert. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, er meðal þeirra sem hafa sagt að sú leið sé fær, ef menn telja sig geta fengið undanþágur frá þriðja orkupakkanum sem halda. Arnar Þór Jónsson héraðsdómari hefur talað með sama hætti.