Leikskáldið

Leikritaskáldið Pierre Beaumarchais fæddist í Parísarborg, sonur úrsmiðs og því úr ágætlega efnaðri millistétt sem einmitt óx ásmegin á þessum árum. Hann var fæddur árið 1732 og var því ungur maður þegar Upplýsingin var komast almennilega á legg með sínum efasemdum um að aðalinn væri upphaf og endir alls góðs í frönsku samfélagi. Honum var ætlað að taka við af föður sínum og leggja fyrir sig úrsmíðar en var víst latur og óáhugasamur um slík störf til að byrja með. Síðan kom í ljós að drengurinn var ekki hæfileikalaus og að lokum fór svo að hann var útnefndur sérstakur úrsmiður hirðarinnar og vann sér meðal annars til frægðar að útbúa úr á hring fyrir Madame De Pompadour, ástkonu sjálfs Loðvíks fimmtánda. 

Beaumarchais, sem reyndar bjó til þetta nafn sitt, var mjög svo duglegur við að enduruppgötva sjálfan sig og endurhanna. Hann tók ýmis verkefni að sér fyrir konung sinn sem hann var misvel tilbúinn til að sinna. Hann kenndi dætrum konungs á hörpu og gerðist tónlistarráðgjafi við hirðina. Hann sá um veiðilendur og garða konungs á tímabili og reyndi að byggja upp viðskiptatækifæri í vesturheimi, meðal annars með það í huga að sækja þangað ódýrt vinnuafl, þræla, þó að þau plön hafi skolast til. 

Ferðalög til Spánar urðu svo til þess að það kviknaði á leikskáldinu sem blundaði í Beaumarchais en það var einmitt úr andblæ Spánar sem frægustu leikritin hans þrjú, Fígaróleikritin svokölluðu, spruttu. Tvö þau fyrri lifa góðu lífi í óperuútgáfum: Rakarinn frá Sevilla í meðförum Rossinis og Brúðkaup Fígarós í meðförum Mozarts. 

Upptaktur af byltingunni

Fígaróleikrit Beaumarchais þykja ágæt heimild um samfélagsbreytingarnar sem að komu yfir Evrópu á síðari hluta átjándu aldar. Í þeim er valdið gagnrýnt, hetjurnar í brúðkaupinu eru til dæmis þjónustufólkið og spurningar eru settar fram við þau aldagömlu forréttindi sem aðallinn hafði tekið sér og varið með kjafti og kló. Sjálfur byltingarmaðurinn Napóleon á síðar að hafa sagt að með leikritinu um Brúðkaup Fígarós hafi Beaumarchais nánast þjófstartað byltingunni og auðvitað fóru leikritin þvert ofan í valdhafa. Konungurinn Loðvík sextándi á að hafa sagt að þessi maður gerði gys að öllu því sem stjórnvöld þyrftu að virða og halda í heiðri. Hann gerði þannig gys að þeirri fastmótuðu þjóðfélags- og stéttskípan sem brátt átti eftir að falla á þeim byltingartímum sem í hönd fóru.

Skrautlegt líf

En lífshlaup Beaumarchais var ævintýralegt. Hann var auk þess að vera leikskáld og úrsmiður uppfinningamaður, diplómati, tónlistarmaður, njósnari, vopnasali, fjárfestir, áhugamaður um garðrækt og byltingarmaður austanhafs og vestan. Þegar nær leið byltingarlátunum í Evrópu varð hann líka einhvers konar táknmynd fyrir þær félagslegu breytingar frelsis, jafnréttis og bræðralags sem lágu í loftinu. Og það var í takti við þær áherslur hann hafði milligöngu í bandaríska frelsisstríðinu um að Frakkar styddu bandaríska uppreisnarherinn löngu áður en Frakkland tók beinan þátt í hernaðinum. 

Milli þess sem hann fór í leynilegar sendiferðir og stundaði margs konar leynimakk lagði Beaumarchais áherslu á ýmis konar bókmenntir. Hann tók til dæmis þátt í að gefa út verk Voltaires í heildarútgáfu skömmu eftir dauða heimspekingsins sem átti jú ýmis skrif í skúffunni sem voru ráðandi valdhöfum á móti skapi. 

Eftir stjórnarbyltinguna 1789 og væringarnar sem henni fylgdu varð það samt svo að Beaumarchais, sem eitt sinn hafði verið eins konar táknmynd frelsis í heimalandinu, varð nýjum stjórnvöldum óþægur og endaði ævi sína bæði á fangelsisdvöl og í útlegð í Þýskalandi. 

Leikrit sem bannvara

Uppfærslusagan á leikritinu Galinn dagur eða Brúðkaup Fígarós eftir Beaumarchais var snúin og fleiri en einn einvaldur hafði áhyggjur af því að almenningur kæmist í verkið og sæi það á fjölum leikhúsa. Það átti við í heimalandinu og líka í Austurríki þar sem Jósef II keisari réð ríkjum á tímum Mozarts. Jósef leyfði samt prentun franska leikritsins en það var síðan óperutextahöfundurinn, hinn ítalski Lorenzo Da Ponte sem segist sjálfur hafa sannfært keisarann um að leyfa honum og Hr. Mozart að útbúa óperu upp úr leikritinu. Til þess sagðist hann síðar hafa þurft að beita sinni mestu kænsku og diplómasíu.

Textasmiðurinn

Í óperutextasmiðnum da Ponte hittum við fyrir annan ævintýramann. Hann var ítalskur gyðingur frá Feneyjalýðveldinu sem tók ekki aðeins kaþólska trú heldur var vígður sem kaþólskur prestur. Hann kenndi síðar latínu, ítölsku og frönsku í fljótandi borginni á lóninu við Adríahaf. Þrátt fyrir prestvígsluna og tengslin við guðdóminn var da Ponte gerður brottrækur frá Feneyjum eftir að hafa verið dæmdur fyrir frillulifnað og það að nema heiðvirðar konur á brott. Hann var þannig hálfgerður mannræningi. Hann bjó í vændishúsi og hélt þar víst nokkuð syndsamleg samsæti.

Frá Feneyjum lá leiðin til Austurríkis þar sem tónskáldið Antonio Salieri var tengiliður hans inn í listalíf Vínarborgar og þar sem hann var ráðinn sem óperutextasmiður og hafði sem slíkur nóg að gera, vann að óperum með Salieri, spænska tónskáldinu Vincente Martin y Soler og loks stráknum sem virkaði á uppleið, Wolfgang Amadeus Mozart. 

Frumkvæði Mozarts

Það var víst Mozarts sem bryddaði upp á því að þeir ynnu saman að Brúðkaupi Fígarós sem átti eftir að vera fyrsta af þremur Da Ponte óperum Mozarts, á eftir fylgdu Don Giovanni og Cosí fan tutte. Lorenzo Da Ponte var lunkinn við að aðlaga verk annarra fyrir óperusviðið og dró hæfilega úr stéttabaráttu-áherslum í leikriti Beaumarchais og kryddaði jafnframt á móti með samskiptum kynjanna. Það hefur löngum þótt spennandi á óperusviði. 

Síðar, eftir að velgjörðarmaðurinn Jósef II dó og svo ári síðar sjálfur Mozart, vann da Ponte sem textasmiður í London en endaði loks ævi sína sem Bandaríkjamaður, setti til dæmis upp Don Giovanni í fyrsta sinn í New York og ritaði ævintýralega ævisögu sína árið 1807. Hann dó hins vegar ekki fyrr en 1838 og hafði þá meðal annars stofnað fyrsta sérstaklega byggða óperuhúsið vestanhafs, Ítalska óperuhúsið í New York. Ævintýrið fór snarlega á hausinn, en lagði grunninn að því glæsilega óperustarfi sem en fer fram í borginni.

Da Ponte var jarðaður með viðhöfn enda hafði hann reynst listalífi New York vel og var vitanlega bein tenging aftur til Mozarts, textahöfundur þriggja meistaraverka og mikilvægur í samstarfi sem flestir eru þó sammála um að hafa risið hæst strax í fyrstu tilraun með Brúðkaupi Fígarós. Da Ponte var samt alltaf klár á því að grunnurinn að árangrinum hefði verið það sem hann kallaði guðlega snilli samverkamannsins, Mozarts, við að skapa algjörlega nýtt sjónarspil sem ekki hafði áður þekkst í sögu óperunnar. Það var Brúðkaup Fígarós.

Íslenska óperan frumflytur uppfærslu sína á Brúðkaupi Fígarós á laugardag, 7. september. Allar upplýsingar má finna hér.  

Myndin sem fylgir viðtalinu hér efst er úr kynningarefni sýningarinnar.