Öryggisógnir tengdar uppbyggingu 5G háhraðanetsins hafa mikið verið til umræðu í Evrópu, þá sérstaklega meintar ógnir tengdar aðkomu kínverska fjarskiptarisans Huawei. Íslensk stjórnvöld hafa lítið skipt sér af þessu en nú hefur orðið breyting þar á. Nýr starfshópur á að skoða hvernig tryggja megi að uppbygging nýs fjarskiptanets hér verði örugg. Forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar sér ekki fyrir sér að tekið verði fyrir aðkomu Huawei að uppbyggingu 5G-nets á Íslandi.
Fimmta kynslóð farneta verður ekki bara hraðvirkari en sú fjórða. 5G-netið verður lykilhluti af innviðum hins snjallvædda þjóðfélags og grunnurinn að fjórðu iðnbyltingunni. Eftir nokkur ár verður nánast allt tengt þessu kerfi; ekki bara farsímar heldur líka heimilistæki, farartæki, umferðin og heilbrigðiskerfið. Truflanir í kerfinu gætu því varðað þjóðaröryggi.
Framarlega á sviði 5G
Huawei er eitt stærsta fjarskiptafyrirtæki heims, það framleiðir snjallsíma en líka fjarskiptabúnað, stofnað árið 1987. Nafnið, Huawei, borið fram Va-vei, þýðir Kína getur eða Kína lofar góðu. Fyrirtækið er framarlega þegar kemur að framleiðslu búnaðar í nýja 5G-farnetakerfið og ríkisstyrkir eru sagðir gera því kleift að bjóða lægra verð en keppinautarnir.
Óttast hakkara á vegum kínverskra stjórnvalda
Bandaríkin hafa beitt sér gegn kínverska fyrirtækinu og hvatt önnur ríki til þess að sniðganga það. Þar á bæ óttast menn að stjórnvöld í Kína geti nýtt 5G- fjarskiptabúnaðinn til að njósna eða hafa óeðlileg afskipti af öðrum ríkjum. Ástæðan er sú að í Kína eru í gildi lög sem kveða á um að kínversk fyrirtæki skuli vinna með kínversku leyniþjónustunni og veita kínverskum stjórnvöldum aðgengi að upplýsingum, óski þau þess. Í umfjöllun á vef BBC segir að stjórnvöld í Bandaríkjunum óttist að hakkarar studdir af kínverskum stjórnvöldum gætu hakkað sig inn á eitthvert tækjanna sem tengt verður interneti hlutanna, svo sem ísskáp eða grátgát, tæki sem notuð eru til að fylgjast með sofandi börnum. Þessi almennu tæki gætu hakkarar nýtt til þess að komast að kjarna kerfisins og stöðvað starfsemi orkuvera eða valdið álíka usla.
Huawei segist ekki myndu njósna
Huawei sem er með starfsemi víða um heim, vísar þessu á bug, stofnandinn Ren Zhengfei segir að fyrirtækið myndi aldrei taka í mál að njósna fyrir kínversk stjórnvöld eða ógna upplýsingaöryggi ríkja, fyrirtækja eða einstaklinga. Stofnandinn Ren Zhengfei segir andstöðu Bandaríkjanna ekki skaða fyrirtækið, það sé nóg af öðrum viðskiptavinum.
Upphlaup í Færeyjum
Þátttaka Huawei í uppbyggingu 5G-kerfisins hefur mikið verið til umræðu í löndunum í kringum okkur. Í Noregi og Danmörku hafa stór fyrirtæki sem áður hugðust vinna með Huawei snúið viðskiptum til Ericsson og fyrir jól fór allt í háaloft í Færeyjum eftir að lögbann var sett á umfjöllun færeyska Kringvarpsins um viðræður stjórnvalda við fjarskiptafyrirtækið kínverska.
Bretar velja að skipta við Huawei
Ástralar og Nýsjálendingar fylgja Bandaríkjunum, sem vel á minnst eiga í viðskiptastríði við Kína. Þjóðverjar eru óákveðnir. Bretar samþykktu á dögunum að leyfa aðkomu Huawei að uppsetningu 5G-nets þar í landi, þó með ákveðnum takmörkunum, í hjarta kerfisins, sem helstu gögn streyma um, verður notaður búnaður frá öðrum fyrirtækjum. Þá verður búnaður frá Huawei ekki notaður í grennd við herstöðvar eða kjarnorkuver. Bretar voru í ákveðinni klemmu, á milli tveggja stórvelda, Kína og Bandaríkjanna. Þeir ætla að nota búnað frá mörgum birgjum. Stjórnvöld í Bretlandi hafa fengið tölvuöryggismiðstöð Bretlands til að greina öryggisógnir tengdar Huawei. Miðstöðin hefur ekki fundið neinar vísbendingar um njósnir eða ríkisafskipti en aftur á móti hafa fundist gallar sem lúta að hugbúnaði og upplýsingaöryggi.
Sjá einnig: Bretar heimila Huawei að bjóða í 5G kerfið.
Þögn íslenskra stjórnvalda
Íslensk stjórnvöld hafa verið þögul. Um miðjan desember sendi Spegillinn samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu fyrispurn um hvort ráðuneytið hygðist gera einhverjar ráðstafanir, funda með fjarskiptafyrirtækjum á Íslandi eða meta hvort eitthvað mæli á móti því að íslensk fyrirtæki byggi upp 5G-net með búnaði frá Huawei. Svarið var á þá leið að stjórnvöld hefðu ekki séð tilefni til að gera formlegt áhættumat vegna fyrirtækisins. Þá hafi ekki verið fundað með fjarskiptafélögunum. Ráðuneytið hafi þó fylgst vel með umræðu um fyrirtækið á alþjóðlegum vettvangi og vinnu Evrópusambandsins. Þá hafi öryggi 5G fjarskiptakerfa og öryggi birgjakeðju borið á góma á ýmsum fundum og ráðstefnum sem starfsmenn ráðuneytisins hafi sótt. Öryggi birgjakeðjunnar hefur líka verið rætt að minnsta kosti einu sinni á fundi þjóðaröryggisráðs.
Nú eru íslensk stjórnvöld farin að skoða þetta nánar. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði í síðustu viku starfshóp sem á að tryggja að uppbygging 5G-kerfisins verði örugg og íslenska fjarskiptakerfið njóti áfram trausts bæði innanlands og utan. Starfshópurinn á að meta hvort breyta þurfi regluverkinu til að tryggja öryggi.
Segir ekki Íslands að leiða
Voru stjórnvöld hér sein að taka við sér? Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar segir að horfa verði til stöðu Íslands í þessu samhengi. „Ísland er nú kannski ekki mótandi þjóð þegar kemur að póiltískum vendingum varðandi birgjakeðjuna. Ég held það hefði ekki verið skynsamlegt fyrir íslensk stjórnvöld að stíga of snemma til jarðar í þessu máli.“
Það sé skynsamlegast að fylgjast með þróuninni í nágrannaríkjunum og taka mið af henni.
Í starfshópi stjórnvalda sitja þrír fulltrúar, einn frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, einn frá dómsmálaráðuneyti og einn frá utanríkisráðuneytinu. Við vinnuna á hópurinn einmitt að horfa til þess hvaða leiðir grannríki fara og líta til nýrra fyrirmæla sem Evrópusambandið sendi frá sér í síðustu viku, í fundargerð starfshópsins frá í síðustu viku segir að viðmið og kröfur ESB eigi eftir að hafa bein eða óbein áhrif á Evrópska efnahagssvæðinu.
Snúist um öryggi í víðtækum skilningi, ekki bara Huawei
Fyrirmæli Evrópusambandsins eru heildstæð og lúta að margskonar áhættum, til dæmis tengdum búnaðinum sjálfum, uppsetningu hans og rafmagnstruflunum. Hrafnkell leggur áherslu á að vinna stjórnvalda snúi ekki eingöngu að ákveðnum ríkjum og hugsanlegum afskiptum þeirra heldur sé verið að hugsa um öryggi kerfanna í víðu samhengi og til framtíðar, framleiðendur búnaðar geti komið og farið og þó birgjarnir séu fáir í dag gæti þeim átt eftir að fjölga. Því sé gott að hafa birgjakeðjuna blandaða. Hrafnkell bendir á að í skjali ESB sé þó líka varað við nýjum hættum, þeim sömu og Bandaríkin hafa varað við. Annars vegar því að ríki verði of háð einum birgja, hins vegar því að erlend ríki geti haft áhrif á virkni 5G kerfa í gegnum framleiðendur búnaðar. „Það eru sannarlega sjónarmið sem Bandaríkjastjórn hefur haldið á lofti. Mér sýnist vera sammælst um það innan Evrópusambandsins að taka á þessum nýju hættum með þessum samræmda hætti.“
Getur varðað öryggis- og varnarsamstarf Íslands
Tæpt er á þessum nýju ógnum í fundargerð starfshópsins frá í síðustu viku. Þar segir að fram hafi komið sjónarmið um að ekki sé skynsamlegt að allt 5G kerfið byggi á búnaði frá einum birgja þannig að bilun, rekstrarerfiðleikar eða annað geti valdið því að kerfið lamist. Þá hafi ýmis ríki sett sérstakar öryggiskröfur varðandi kjarnahluta 5G fjarskiptakerfa og takmarkanir á hversu stór hlutdeild eins framleiðenda megi vera í sendahluta þeirra. Á fundinum var líka rætt um að öryggis- og varnarsamstarf Íslands við önnur lönd geti falið í sér skuldbindingar um öryggi fjarskiptakerfa. Póst- og fjarskiptastofnun lagði á fundinum þar sem starfshópurinn var skipaður áherslu á að starfshópurinn hefði meðalhóf í huga við mótun tillagna. Hrafnkell hjá Póst- og fjarskiptastofnun segir ekki liggja fyrir útfærslu á hvernig best sé að dreifa áhættu í birgjakeðjunni. „Nákvæmlega hvernig þetta fer fram liggur hvorki fyrir hér á Íslandi né annars staðar en það eru dregnar upp meginlínur um að tiltekinn hluti búnaðarins þurfi að koma frá ríki sem er í virku varnarsamstarfi við það ríki sem er að kaupa búnaðinn. Það er líka talað um að vera með tiltekið hlutfall sendabúnaðar frá vestrænu ríki eða hvað það er.“
Nova og Vodafone skipta við Huawei
Það eru ekki mörg fyrirtæki sem sérhæfa sig í uppbyggingu 5G nets. Hrafnkell hefur heyrt um fjögur, tvö kínversk, Huawei og ZTE, og tvö norræn; Ericsson og Nokia. Hrafnkell segir það ekki sitt hlutverk að ræða utanríkispólitíkina og viðhorf til þess að kaupa mikilvægan búnað frá Kína.
Nova og Vodafone hafa byggt sín 4G kerfi upp með búnaði frá Huawei og í fyrra setti Nova upp 5G sendi með búnaði frá fyrirtækinu. Síminn skiptir við Ericsson. Nýja 5G kerfið mun fyrst um sinn byggja á stoðum 4G kerfisins.
Uppbygging 5G kerfa hér á landi hefst líklega á þessu ári, Póst - og fjarskiptastofnun hyggst útdeila tíðnum til fyrirtækjanna fyrir marslok. Þær geta fyrirtækin notað til skamms tíma. Árið 2022 fá þau úthlutað tíðnum til frambúðar.
Stórveldapólitík frekar en umhyggja fyrir hag neytenda
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, sem rekur Vodafone, segir umræðuna um öryggisógnir tengdar Huawei mjög sérstaka, þegar sé búið að semja um að Huawei komi að uppbyggingu tuga kerfa í Evrópu. „Það er mjög hæpið þegar ríkisstjórnir, ég tala nú ekki um ríkisstjórnir annarra ríkja, fara að skipta sér af því hvaða birgja einhver einkafyrirtæki , annað hvort heima fyrir eða í öðrum löndum eru að nota. Þetta snýst meira um stórveldapólitík en hag neytenda í viðkomandi löndum.“
Hann segir það algengan misskilning að njósnað hafi verið í gegnum símkerfi, yfirleitt sé njósnað í gegnum símtækin sjálf og eina fyrirtækið sem vitað sé að hafi veitt stjórnvöldum aðgengi að upplýsingum sé amerískt.
Fyrirtækin skoði sameiginlega uppbyggingu
Heiðar segir að símfyrirtækin á Íslandi séu að skoða það hvort þau geti byggt 5G kerfið upp saman, þannig yrði kerfið öruggara og hægt að samnýta búnað frá, Huawei og Ericsson. Þá hefði ekkert eitt fyrirtæki tögl og hagldir hér. Heiðar segir að þreifingar fjarskiptafyrirtækjanna hafi verið tilkynntar til Póst- og fjarskiptastofunar og Samkeppniseftirlitsins.
Sér fyrir sér að íslensk fyrirtæki skipti áfram við Huawei
Hrafnkell segir ekki líklegt að fyrirtækjunum verði bannað að skipta við ákveðna birgja. Þetta snúist um að takmarka áhættu og gera skynsamlegar ráðstafanir. „Ég sé alveg fyrir mér að íslensk fjarskiptafyrirtæki muni áfram, alllavega hvað varðar hluta af sínum búnaði, nota Huawei kerfi enda hefur hvorki verið sýnt fram á, það ég veit, að þessi kerfi séu óörugg né sýnt fram einhver öryggisatvik tengd því að þau hafi verið misnotuð til að koma á einhverri virkni eða stela gögnum.“
Nú er verið að endurskoða fjarskiptalög í heild sinni. Hrafnkell segir að lagabreytingar þurfi til, eigi að skylda fyrirtækin til að skipta við fleiri en einn birgja eða kaupa ekki kjarnabúnað af ákveðnum birgjum. „Ef að Póst- og fjarskiptastofnun á að geta stigið inn í það að hlutast til um hvaða búnaður er notaður í farnetum hér til framtíðar og frá hvaða framleiðendum þá þarf að færa það inn í lög hvernig á að standa að því, annars hefur stofnunin ekki heimildir til þess að banna eða leyfa tiltekinn búnað með öðrum sjónarmiðum en þeim sem lúta að núverandi lögum til dæmis um staðla, CE-merkingar og annað slíkt.“