„Við viljum vita sem mest um lifnaðarhætti víkinga, hvernig þeir bjuggu, hvað þeir borðuðu, hvernig þeir börðust. Við vitum að þeir framleiddu járn sem þeir notuðu í vopn og allskyns nauðsynjahluti og við höfum rannsakað járngerð á öðrum Norðurlöndum," segir William R. Short, framkvæmdastjóri Hurstwic sem er rannsóknarstöð um lifnaðarhætti víkinga í samtali við Landann.
Það hefur lengi verið vitað að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar var hér umfangsmikil járngerð úr mýrarrauða og hefur það verið staðfest með fornleifarannsóknum.
Hinsvegar hafa menn ekki verið vissir um hvernig nákvæmlega járnið var unnið. Til þess að komast að því hvaða aðferðir menn notuðu hér var blásið til nokkurs konar tilraunahátíðar á Eiríksstöðum í Haukadal í sumar þar sem Short ásamt ýmsum vísindamönnum, íslenskum fornleifafræðingum þar á meðal, prófuðu sig áfram.
„Aðalvandamálið við að búa til járnbrennsluofn var að íslenski leirinn þolir ekki nógu hátt hitastig en við vitum að menn notuðu leir í ofnana. Við prófuðum að blanda allskonar efnum í leirinn og enduðum á því að finna töfraefnið sem er aska úr brunnum hrossaskít," segir William Short.