Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar, vill að hringtorg með litlum göngum leysi umferðarljós af hólmi á þeim gatnamótum í borginni sem séu helstu flöskuhálsarnir í umferðinni.
Eyþór sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 að grípa þyrfti til aðgerða á næsta kjörtímabili til að leysa umferðarvanda í borginni. Hann sagði að ekki dygði að líta aðeins til langrar framtíðar með stórum framkvæmdum eins og Borgarlínu.
Einfaldar lausnir í stað stórra framkvæmda
„Ljósastýrð gatnamót eru of mörg og hættuleg. Ef þeim er breytt á skynsaman hátt þá minnkar tafatími mikið. Ég er að horfa til Hollendinga sem eiga lítið landsvæði, ég er ekki að horfa á stór mannvirki heldur einfaldar og skynsamar lausnir,“ sagði Eyþór. „Eins og til dæmis hringtorg með litlum göngum. Þetta hefur verið gert með góðum árangri.“
Eyþór sagði að framkvæmdatíminn á hverjum gatnamótum yrði eitt ár og að fjárfestingin myndi sig til baka á fimm árum. Hann sagði að í þessum efnum væri hann að ræða um fjögur til sex gagnamót sem séu stóru flöskuhálsarnir í umferðinni. Nú þurfi að fara í greiningu á aðstæðum.
Uppbygging austast og vestast í borginni
Eyþór sagði að halda þyrfti áfram uppbyggingu í hverfum í austurhluta borgarinnar, svo sem í Úlfarsárdal. Nú væri húsnæðisverð svo hátt að það gæti leitt til fólksflótta, sem meðal annars birtist í að erfiðara væri að fá fólk til starfa í ýmsum störfum, svo sem á leikskólum. Að auki væru tækifæri til að byggja upp íbúðabyggð í áföngum í Örfirisey. Það svæði væri nálægt miðborginni og fólk gæti farið leiðar sinnar gangandi og á hjóli.