Hreiðar Már Sigurðsson fyrrverandi forstjóri Kaupþings neitaði sök við upphafi aðalmeðferðar í svokölluðu CLN-máli í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Hann gerir jafnframt athugasemd við það að ákæran standi eftir óbreytt eftir að nýjar upplýsingar komu fram í málinu.

Um er að ræða eitt stærsta hrunmálið þegar horft er til upphæðar þeirra lána sem bankinn veitti. Það snýst um rúmlega 70 milljarða lán sem Kaupþing veitti eignarhaldsfélögum til að fram gætu farið viðskipti með lánshæfistengd skuldabréf.

Hreiðar Már og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, eru ákærðir fyrir umboðssvik vegna ólöglegra lánveitinga og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, ákærður fyrir hlutdeild í brotunum.

Ákært var í málinu árið 2014 og voru sakborningar sýknaðir í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2016. Um það leyti sem dómurinn var kveðinn upp gerði Deutsche Bank samning við Kaupþing um að síðarnefndi bankinn fengi verulegan hluta af lánsfjárhæðinni endurgreidda. Spegillinn á RÚV greiddi frá þessu samkomulagi þegar málið var komið fyrir Hæstarétt og með þær upplýsingar til hliðsjónar ógilti Hæstiréttur dóminn, enda þyrfti að rannsaka málið betur.

Málið fór svo aftur fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur en sakborningar kröfðust frávísunar enda hefði ákæruvaldið ekki rannsakað það nógu vel að nýju. Héraðsdómur féllst á frávísunina en ekki Landsréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að það ætti að taka málið til meðferðar í héraði að nýju. 

Og aðalmeðferð hófst sem sagt í dag. Skýrslutaka hófst af Hreiðari og spurði hann hvort fullyrðingar í ákærunni um tjón bankans af viðskiptunum ætti virkilega að standa óbreytt eftir upplýsingar um samkomulag Deutsche Bank við Kaupþing höfðu komið fram. Hreiðar fullyrti að eftir að samkomulagið lægi fyrir væri ljóst að Kaupþing hefði ekki orðið fyrir tjóni af völdum viðskiptanna.

„Ég vona að ég sé ekki ómálefnalegur en þetta er svona eins og maður yrði ákærður fyrir mannshvarf. Svo finnst sá horfni og það varð ekkert mannshvarf. Og samt myndi maður sitja í dómssal ákærður fyrir hvarf,“ sagði Hreiðar.

Skýrslan sem verið er að taka af Hreiðari fyrir dómi er mjög ítarleg. Útskýringar hans á lánveitingunum eru í stórum dráttum þær að hjá bankanum hafi starfað tveir viðskiptastjórar, sem voru á góðum launum. Þeir hafi vitað að lánveitingarnar væru gerðar með sínum vilja. Það hafi aftur á móti verið á ábyrgð viðskiptastjóranna að fá samþykki lánanefndar bankans fyrir lánveitingunum áður en þær voru framkvæmdar. Þeir hafi haft nægjanlegt svigrúm til að fá samþykki lánanefndarinnar fyrir því að lánin voru innt af hendi. Hann hafi ekki verið í stöðu til þess að kanna hvort að þeir myndu fá samþykki lánanefndarinnar áður en lánin voru veitt. 

Hreiðari Má var talsvert heitt í hamsi í skýrslutökunni og sakaði Björn Þorvaldsson saksóknara ítrekað um óheiðarleg vinnubrögð við meðferð hans á málinu.