Um þessar mundir eru 70 ár síðan um 240 þýskar konur fluttu hingað til lands og settust hér að. Sumar þó aðeins tímabundið. Þetta var skömmu eftir síðari heimsstyrjöldina og aðstæður kvennanna erfiðar heima fyrir eftir hörmungar stríðsins.
Vilmundur Hansen blaðamaður var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1 í morgun, en hann hefur fjallað ítarlega um þessa sérstöku fólksflutninga.
Vilmundur sagði að Reykvíkingar hefðu verið afar forvitnir um komu kvennanna og að margir hefðu gert sér ferð út í Nauthólsvík þar sem konurnar dvöldu fyrstu dagana og lagst þar á gluggana til þess að skoða konurnar.
Reykvíkingar tóku misvel á móti þessum gestum. Nokkrum þeirra var t.a.m. boðið inn á Hótel Borg þar sem þeim var boðið að borða. Aðrar fengu heldur óblíðari móttökur borgarbúa og dæmi voru um að Reykvíkingar veittust að konunum og hræktu á þær. Má rekja það til óvildar og gremju í garð Þjóðverja skömmu eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar.
Margar kvennanna settust hér að, giftust Íslendingum og er talið að um 3000 núlifandi Íslendingar séu afkomendur þessara kvenna.
Hægt er að hlusta á viðtalið við Vilmund Hansen í spilaranum hér að ofan.