Ákvörðun Bandaríkjaforseta um að draga herlið sitt frá landamærum Tyrklands og Sýrlands var hörmuleg, og hefur áhrif um allan heim. Þetta segir John Kerry, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hann segir ákvörðunina kosta almenna borgara lífið. Þá segir hann að rannsókn á meintum þrýstingi Trumps á stjórnvöld í Úkraínu sé fullkomlega eðlileg.

Í endurriti af símtali sem Donald Trump forseti Bandaríkjanna átti við Volodymyr Zelensky forseta Úkraínu kemur fram að hann bað forsetann um að skoða mál sonar Joe Bidens, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, sem var í stjórn gasfyrirtækis í Úkraínu. Biden gæti orðið frambjóðandi Demókrata í forsetakosningunum á næsta ári og er rannsókn hafin á því hvort Trump hafi með þessu verið að reyna að fá yfirvöld í  Úkraínu til að hafa áhrif á kosningarnar. Trump á nú yfir höfði sér ákæru fyrir embættisglöp.

John Kerry, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi, kom hingað til lands í gær, til þess að ávarpa Arctic Circle þingið. Fréttastofa náði tali af honum við Bessastaði í gær, og spurði hann út í stjórnmálin í heimalandinu.

Telur þú að ákæra ætti Trump forseta fyrir að beita foresta Úkraínu þrýstingi?

„Ég er staddur í öðru landi og ætla ekki að tjá mig um pólitíkina heima í þessu tilliti, en ég tel að rannsóknin sé fullkomlega lögmæt, út frá endurritinu sem forsetinn birti sjálfur og miðað við vitnisburð embættismanna í utanríkisráðuneytinu og víðar. Ég tel því að rannsóknin þurfi að fara fram og síðan verði næstu skref ákveðin út frá þeim gögnum.“

„Hræðilegt að sjá þessa atburði“

En Trump er í ólgusjó á fleiri vígstöðvum. Harðir bardagar hafa staðið yfir á milli Tyrkja og Kúrda á landamærum Tyrklands og Sýrlands. Trump dró herlið Bandaríkjanna til baka í vikunni en Kúrdar óskuðu í gær eftir aðstoð og sögðu það siðferðisskyldu Bandaríkjanna að koma þeim til aðstoðar. 

Hver eru áhrif þess að Trump hafi yfirgefið Kúrda í Sýrlandi á bandamenn Bandaríkjamanna og á utanríkismálastefnu landsins?

„Þetta er að mínu mati hörmuleg ákvörðun sem hefur afleiðingar um allan heim. Ég vann að því sem utanríkisráðherra að mynda bandalag 68 ríkja til að berjast gegn Íslamska ríkinu. Við hefðum ekki getað sigrað samtökin eins fljótt og við gerðum án þess að senda bandaríska herflokka á staðinn og ef Kúrdar hefðu ekki tekið þátt í þeim slag og hefðu þeir ekki gegnt lykilhlutverki í því að loka landamærum Tyrklands. Þetta eru svik sem eiga eftir að vekja alvarlegar spurningar á þessu landsvæði um skuldbindingu þessarar ríkisstjórnar, orð hennar og trúverðugleika. Mér finnst hræðilegt að sjá þessa atburði í sjónvarpinu, meiri dráp og rán á saklausu fólki, sem er afleiðing af ákvörðun þessa eina manns. Allur heraflinn í Bandaríkjunum er andsnúinn þessu og meira að segja öldungadeildarþingmenn repúblikana. Þetta er dýru verði keypt,“ segir Kerry.