Flestir kannast við stefið sem leikið er á undan Eurovision-söngvakeppninni og fleiri Eurovision-útsendingum, en ekki vita samt allir hver er höfundur þess. Það er Marc-Antoine Charpentier, eitt mesta tónskáld Frakka á barokktímanum.
Marc-Antoine Charpentier fæddist í París 1643 og dó 1704. Eurovision-stefið er tekið úr forspili að lofgjörðaróði hans, „Te Deum“. Talið er að verkið hafi verið samið 1692 sem þakkargjörð til Guðs fyrir sigur sem Frakkar höfðu unnið í stríði. Charpentier stundaði tónlistarnám á Ítalíu og eftir heimkomuna til Frakklands starfaði hann í 17 ár fyrir Marie de Lorraine, hertogaynju af Guise. Síðar varð hann tónlistarstjóri í skóla og kirkju Jesúíta í París og síðustu árin starfaði hann við kirkjuna Sainte-Chapelle þar í borg.
Samdi líka Árstíðirnar fjórar
Árið 1685 samdi Charpentier verk sem hann kallaði „Árstíðirnar fjórar“. Það var ólíkt hinu fræga verki Vivaldis með sama nafni, tónsmíð Charpentiers er ætluð til söngs og textinn er tekinn úr Ljóðaljóðum Biblíunnar, en þess er engu að síður gætt að velja texta sem hentar hverri árstíð fyrir sig. Ljóðaljóðin eru ástarljóð sem oft eru skilin sem trúarlegt táknmál þar sem þau eru hluti af Biblíunni. Fyrsti kafli tónverksins er „Vorið“ sem hefst á þessum orðum úr Ljóðaljóðunum:
Stattu upp, vina mín,
fríða mín, æ kom þú!
Því sjá, veturinn er liðinn,
rigningarnar um garð gengnar, - á enda.
Les Arts Florissants
Þó að trúarleg verk séu áberandi hluti af tónsmíðum Charpentiers samdi hann líka óperur. Ein merkasta ópera hans er „Médée“ (Medea) frá árinu 1693. Charpentier samdi líka óperu með heitinu „Les Arts Florissants“ (Hinar blómstrandi listir). Af henni dregur barokksveitin „Les Arts Florissants“ nafn sitt, en William Christie stofnaði hana árið 1979 og hún hefur lagt mikla áherslu á það að flytja verk eftir Charpentier.
Í þættinum „Á tónsviðinu“ fim. 23. maí kl. 14.03 verða flutt verk eftir Charpentier, meðal annars „Te Deum“, sem hefur að geyma Eurovision-stefið.