Meginkrafa félaga innan BHM er að mánaðarlaun verði ekki lægri en 500 þúsund krónur á mánuði. Á aðalfundi BHM í síðustu viku var krónutöluhækkun launa alfarið hafnað. kjarasamningar háskólamanna hafa verið lausir frá 1. mars. Samningaviðræður standa yfir en óvíst er hvenær þeim lýkur.
Rætt var við Þórunni Sveinbjarnardóttur í Speglinum. Hún segir að krafa þeirra um launahækkanir þýði ekki að verið sé að gefa Lífskjarasamningunum, sem samið var um á almenna markaðinum langt nef.
„Við höfum bent viðsemjendum okkar á það að við höfum sjálfstæðan samningsrétt og höfum umboð til að semja fyrir okkar fólk á okkar forsendum. Það vita auðvitað viðsemjendur okkar. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að ákvarðanir í kringum gerð Lífskjarasamningsins svokallaða setja auðvitað ákveðinn ramma utan um þetta,“ segir Þórunn. Stjórnvöld hafi lagt fram skattapakka, ráðstafanir í húsnæðismálum og fleira.
„Þar er margt gott á ferðinni og margt sem nýtist vonandi sem flestum. Við erum hins vegar meðvituð um það að skattatillögur stjórnvalda miðast aðallega við lægstu launin í landinu. Við skiljum hvers vegna en við viljum benda á að fólk á meðaltekjum þarf auðvitað að njóta vaxandi kaupmáttar,“ segir Þórunn.
Hlýða má á viðtalið við Þórunni í spilaranum hér að ofan.