Arnar Freyr Arnarsson línumaður í íslenska karlalandsliðinu í handbolta nefbrotnaði í leik með Kristianstad í Svíþjóð milli jóla og nýárs og fékk þar að auki skurð fyrir ofan auga. Af þeim sökum ferðaðist Arnar Freyr ekki með íslenska landsliðinu til Noregs í morgun, þar sem Ísland hefur leik á fjögurra þjóða æfingamóti á morgun, til undirbúnings fyrir HM.

„Þetta gerðist í síðasta leiknum í deildinni að ég fékk smá högg. Þannig ég fékk smá skurð á augabrúnina og brákaðist aðeins í nefinu. En það er allt komið í lag. Þannig að núna er það bara smá hvíld og svo er maður tilbúinn í slaginn,“ sagði Arnar Freyr þegar RÚV ræddi við hann í dag.

Með andlitsgrímu á fyrstu æfingunum

Arnar Freyr er orðinn fastamaður í íslenska landsliðinu og hefur spilað með landsliðinu á síðustu tveimur stórmótum, á HM 2017 í Frakklandi og á EM 2018 í Króatíu. Ísland hefur leik á HM 2019 í Þýskalandi og Danmörku eftir níu daga þegar Ísland mætir Króatíu í München, 11. janúar. En er þátttaka Arnars Freys á HM í hættu?

„Nei, það er ekki í hættu. Það var bara tekin ákvörðun hjá þjálfarateyminu að ég yrði eftir hér heima. Ég verð í einhverju prógrammi hér þar sem ég tek einhver skot og lyfti lóðum. En HM er ekki í hættu,“ sagði Arnar Freyr við RÚV um málið. Hann segir þó að hann muni vera með andlitsgrímu á fyrstu æfingunum með landsliðinu, þegar liðið kemur aftur til Íslands á sunnudagskvöld eftir mótið í Noregi.

Nánar er rætt við Arnar Frey í viðtali sem Haukur Harðarson tók við hann í dag, en viðtalið má horfa á í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.